Yfir áttatíu viðburðir í hreyfiviku á Austurlandi
Yfir áttatíu viðburðir dreifast á sex austfirsk sveitarfélög í evrópsku hreyfivikunni Move Week sem haldin er í fjórða sinn. Alþjóðleg stemming var á ringókynningu á Seyðisfirði í vikunni.„Þátttakan dreifist víðar, það eru fleiri sveitarfélög með og því ber að fagna," segir Hildur Bergsdóttir, framkvæmdastýra UÍA.
Til vikunnar var fyrst blásið árið 2012 og var Fljótsdalshérað þá eina austfirska sveitarfélagið sem tók þátt. Síðan hefur bæst í hópinn og í ár eru viðburðir í Fjarðabyggð, Fljótsdal, Breiðdalsvík, Seyðisfirði og á Vopnafirði skráðir í viðburðadagatalið.
„Við stefnum að því að þetta verði verkefni sem dreifist yfir allt Austurland og hvert einasta sveitarfélag taki virkan þátt."
Markmið vikunnar er að bregðast við vaxandi kyrrsetulífstíl Evrópubúa. „Vikan gengur út á að kynna það sem er í boði og fá fólk til að koma og prufa í von um að það komist á bragðið og finni sína hreyfingu," segir Hildur.
Ungmennafélag Íslands hefur umsjón með verkefninu á Íslandi og UÍA fyrir þess hönd á Austurlandi. „Okkar hlutverk er að hvetja fólk til dáða og styðja við þau sveitarfélög sem hafa áhuga á að fá til sín hreyfiviðburði."
Þannig hefur UÍA þegar komið að rathlaupi og frisbígolfmóti á Egilsstöðum og alþjóðlegri ringókynningu og hláturjóga á Seyðisfirði.
„Það mættu ekkert sérstaklega margir en þeir komu frá fimm þjóðlöndum og þremur heimsálfum."
Vikunni lýkur um helgina. Í dag verður til að mynda ringókynning á nýja strandblakvellinum á Fáskrúðsfirði og í fyrramálið fjölskylduganga á Laugarfell, fjall UÍA í ár, klukkan 11. Nánari yfirlit um hreyfiviðburðina má finna í gegnum www.umfi.is.
Mynd: UÍA