Körfubolti: Tvö tæp töp Hattar í Lengjubikarnum
Höttur er úr leik í Lengjubikar karla í körfuknattleik eftir að hafa tapað gegn Stjörnunni og Haukum um helgina. Liðið getur þó ágætlega við unað eftir nauma ósigra gegn sterkum andstæðingum.Fyrri leikurinn var gegn Stjörnunni á föstudagskvöld og tapaðist hann 90-84. Mínútu fyrir leikslok var munurinn aðeins tvö stig, 86-84, en heimamenn skoruðu síðustu fjögur stigin.
Tobin Carberry átti góðan dag og skoraði 39 stig og hirti 12 fráköst en Eysteinn Bjarni Ævarsson, sem snúinn er heim eftir eitt ár í Keflavík, skoraði 15 stig og sendi 5 stoðsendingar.
Seinni leikurinn gegn Haukum í gærkvöldi tapaðist 98-92 eftir vondan fjórða leikhluta Hattar. Hattarmenn tóku forustuna í byrjun þriðja leikhluta og héldu henni fram í þann fjórða.
Þar snéru Haukarnir taflinu við þótt mínútu fyrir leikslok væri munurinn aðeins eitt stig, 93-92.
Carberrry var aftur stigahæstur með 24 en Hallmar Hallsson, sem kom frá Sindra í sumar, skoraði 16 stig.
Áður hafði Höttur unnið Þór, 74-67 og Fjölni 96-79 á Egilsstöðum. Þeir sigrar skiluðu Hetti í þriðja sæti riðilsins en það dugir ekki til að komast áfram í útsláttarkeppnina.
Höttur hefur keppni í úrvalsdeildinni eftir rúmar tvær vikur. Um helgina var leikið gegn liðum sem hafa fest sig í sessi í þeirri deild en Stjarnan hefur undanfarin ár verið með eitt sterkasta lið landsins.