Kynningarfundur um inngöngu íþróttabandalaga í UMFÍ
Ungmennafélag Íslands hefur boðað til opins kynningarfundar á Egilsstöðum í dag þar sem kynntar verða niðurstöður starfshóps sem falið var að skoða aðild íþróttabandalaga að UMFÍ.Íþróttabandalögin eru sjö og starfa í Reykjavík, Reykjanesbæ, Vestmannaeyjum, Hafnarfirði, á Akranesi, Akureyri og Suðurnesjum. Þau hafa til þessa ekki verið aðilar að UMFÍ.
Þau óskuðu eftir inngöngu í UMFÍ fyrir þing sambandsins fyrir tveimur árum. Þá var skipuð milliþinganefnd til að fara yfir hugsanleg áhrif innkomu þeirra, en hún gæti gerbreytt skipulagi íþróttahreyfingarinnar á landsvísu sem og skiptu lottótekna, einna stærstu tekjulindar hreyfingarinnar.
Tillögur byggðar á niðurstöðu nefndarinnar verða til umfjöllunar á þingi UMFÍ eftir tvær vikur.
Haukur Valtýsson, formaður nefndarinnar og varaformaður UMFÍ, kynnir niðurstöðurnar og stýrir fundinum en með honum í för verður Auður Inga Þorsteinsdóttir, nýr framkvæmdastjóri UMFÍ.
Fundurinn hefst klukkan 17:30 í grunnskólanum á Egilsstöðum.