Hetti spáð botnsætinu: Félögin syðra vilja frekar kaupa Dunkin Donuts en flug
Hetti er spáð botnsætinu í úrvalsdeild karla í körfuknattleik en spá formanna, þjálfara og fyrirliða var kynnt í dag. Þjálfari liðsins er staðráðinn í að afsanna spána þótt hún komi ekki á óvart.„Oftast er að minnsta kosti öðrum nýliðunum spáð niður. Þetta er líklega von flestra liðanna fyrir sunnan sem vilja frekar setja krónurnar í Dunkin Donuts en Flugfélagið," sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, í samtali við Austurfrétt í dag.
Höttur, sem vann fyrstu deildina í fyrra, er langneðstur í spánni og því er spáð að ÍR fylgi með niður. Hinum nýliðunum úr FSu er spáð þokkalegu gengi.
KR-ingar, sem urðu Íslandsmeistarar í vor eftir baráttu við Tindastól, eru langhæstir í spánni og Stólarnir þar á eftir.
„Það eru nokkrir hlutir sem koma á óvart í spánni. Ég bjóst ekki við ÍR svona neðarlega og auk þess á eftir að koma í ljós hvernig Tindastól gengur að fylgja eftir góðu gengi í fyrra," segir Viðar sem er eins og aðrir viss um sigur KR.
Hans athygli er þó fyrst og síðast á eigin liði. „Við erum staðráðnir í að afsanna þessa spá og ætlum okkur að búa til stöðugt úrvalsdeildarlið.
Þetta verður krefjandi og spennandi verkefni í vetur. Við munum berjast fyrir hvern annan og félagið. Við hetjum fólk til að taka þátt í þeirri baráttu og njóta skemmtunarinnar í deildinni á Egilsstöðum í vetur."
Spáin:
KR · 426
Tindastóll · 362
Stjarnan · 354
Haukar · 340
Þór Þ. · 270
Njarðvík · 234
Grindavík · 226
Keflavík · 175
-----------------------
FSu · 141
Snæfell · 105
----------------------
ÍR · 95
Höttur · 74