40 ár frá opnun fyrstu skíðalyftunnar í Oddsskarði

Fjörtíu ár eru í dag liðin síðan Norðfirðingurinn Gunnar Ólafsson fór fyrstur manna upp með fyrstu skíðalyftunni sem komið var fyrir í Oddsskarði. Formleg opnun var þó ekki fyrr en tæpri viku síðar. 

 

„Ég á semsagt allar dagbækurnar hans frá þessum tíma. Þar er meðal annars rakin saga skíðasvæðisins. Þetta er auðvitað mjög merkilegt og alveg ótrúlegt basl sem hann stóð í með öðrum í upphafi,“ segir Gunnar Ingi Gunnarsson, sonur Gunnars.

Hann segir að þann 7. janúar árið 1980 hafi faðir hans farið þrjár ferðir með lyftunni. „Svo var aftur prufukeyrt þann 11. janúar eftir að sætunum var komið á vírinn. Í dagbókunum segir einnig að Bogi Nilsen sýslumaður á Eskifirði og Stefán Þorleifsson hafi verið þar einnig á ferð. Aðalopnunin var svo tveimur dögum síðar, eða 13. janúar og mættu þá um 100 manns. 

Segja má að Gunnar Ólafsson sé faðir þessa svæðis. „Hann stóð í því að fá Norðfjörð, Eskifjörð og Reyðarfjörð í að standa saman að þessu svæði. Þetta var bölvað basl að koma lyftunni upp og svo var auðvitað engin troðari þannig þeir þurftu alltaf að handmoka upp í fjöllin,“ útskýrir Gunnar Ingi. 

Hann bætir við að dagbækur eins og þessar séu merkileg sagnfræðileg heimild. „Þetta er mjög fróðleg lesning. Ég fór að lesa þær aftur í haust og hjó eftir því að það eru einmitt 40  ár liðin frá þessum tímamótum og því langaði mig að vekja athygli á því.“

 

Skíðasvæðin lokuð í dag  

Þessi frásögn kveikir eflaust í mörgum skíðaiðkendum að drífa sig á skíði en Skíðasvæðið í Oddskarði sem og í Stafdal eru lokuð vegna mikils hvassviðris. Upplýsingar um opnunartíma morgundagsins verða birtar á Facebook síðum þessara svæða um hádegi á morgun. 

 

Skíðasvsæðið í Oddskarði. Mynd úr safni. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.