Viðar Örn: Ef körfubolti væri spilaður á pappírunum gætum við pakkað saman

vidar orn hafsteinsson okt15Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari nýliða Hattar í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, er bjartsýnn á að liðið blási af sér hrakspár í deildinni í vetur. Hann segir mikilvægt að byggja upp sterka liðsheild og öflugan heimavöll.

„Ef körfubolti væri bara spilaður á pappírunum þá gætum við pakkað saman og farið heim. Við erum hins vegar ekki í skutlukeppni heldur spilum við körfubolta," segir Viðar.

Liðið hefur leik í kvöld gegn Njarðvík á útivelli og mætir svo Grindavík á sunnudagskvöld í annarri umferð. Höttur vann fyrstu deildina í fyrra en var spáð neðsta sætinu af þjálfurum, fyrirliðum og formönnum úrvalsdeildarliðanna í vetur.

„Það var viðbúið að okkur yrði spáð niður. Hefðin hefur verið sú að liðunum sem koma upp sé spáð niður og þau hafa gjarnan farið niður. Við höfum líka andlit hér sem fáir þekkja. Við þurfum að ná upp stemmingu hér heima og liðsheild sem getur fleytt okkur langt."

Botnslagirnir lykilatriði

Hinum nýliðunum í FSu var hins vegar spáð ágætu gengi. „Þeir unnu leiki stórt á undirbúningstímabilinu en það gefur þeim engin stig. Við spiluðum tvo hörkuleiki við Stjörnuna og Hauka sem við töpuðum naumt en sáum hvað upp á vantar og fengum punkta til að vinna með."

Auk nýliðanna tveggja var því spáð að ÍR og Snæfell yrðu í neðri hluta deildarinnar. Viðar segir innbyrðisviðureignir liðanna í fallbaráttunni verða lykilleikina í vetur.

„Þetta gætu orðið fjögurra stiga leikir, ef hægt er að tala um það og þá skiptir miklu máli að klára okkar heimaleiki."

Heimavöllurinn verður að vera sterkur

Fyrsti heimaleikurinn er hins vegar ekki fyrr en eftir viku en Viðar leggur mikla áherslu á að búa til ljónagryfju á Egilsstöðum.

„Við vorum með langbesta heimavöllinn í fyrstu deildinni og vonandi koma bæjarbúar og styðja okkur í að gera hann góðan. Það hefur verið gert vel við okkur með endurbættri aðstöðu og það er undir okkur komið að sýna að við verðskuldum hana."

Nökkvi Jarl Óskarsson og Ragnar Gerald Albertsson eru farnir síðan í fyrra en í þeirra stað eru komnir Hallmar Hallson frá Sindra, Helgi Einarsson úr Haukum og Mirko Stefán Vrijenic frá Njarðvík auk þess sem Eysteinn Bjarni Ævarsson snýr aftur eftir ársdvöl í Keflavík.

„Mér líst vel á nýju mennina, annars hefðu þeir ekki komið. Við sækjum úrvalsdeildarreynslu í Mirko og Helga. Eysteinn er búinn að kanna hvort grasið sé grænna hinu megin við lækinn og komst að því að svo er ekki. Það tekur tíma að slípa liðið saman en ég hef trú á að við verðum flottir og komum á óvart."

Ætlar sér stærri hluti en vera með Hött í fallbaráttu

Tíu ár eru síðan Höttur spilaði í eina skiptið í úrvalsdeild og þá var Viðar meðal leikmanna. Hann er nú hættur að spila en spreytir sig sem fyrsta sinn sem þjálfari í deildinni og er reyndar yngstur þar.

„Við eigum eftir að hlaupa á veggi og átta okkur á hvar við erum en svo stöndum við upp og lærum. Mér finnst verkefnið spennandi og ég hef fulla trú á því, annars hefði ég ekki tekið það að mér.

Ég ætla mér stærri hluti en að vera með Hött í fallbaráttu. Nú er sénsinn á að taka fyrsta skrefið og ég er þakklátur uppeldisfélaginu fyrir að hafa fengið að byrja að þjálfa snemma. Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur, dag og nótt, til að tryggja framgang Hattar."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.