Viðar Örn: Óska eftir að sjá aldrei aftur svona frá mínu liði
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var afar ósáttur við frammistöðu liðs síns í seinni hálfleik gegn Grindavík í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í gærkvöld. Hann segir hins vegar fyrstu tvo leikina sína að liðið geti vel keppt í deild þeirra bestu.Höttur hóf leik í úrvalsdeildinni á föstudagskvöld og tapaði þá gegn Njarðvík með tveimur stigum í framlengdum leik.
Í gær var röðin komin að öðrum leik á Suðurnesjunum, að þessu sinni í Grindavík. Heimamenn unnu þar 86-74 þrátt fyrir að Hattarliðið væri með forustuna nær allan fyrri hálfleikinn.
„Menn fóru inn í leikhlé og slitu sig í sundur. Þeir spiluðu ekki saman í seinni hálfleik heldur benti á hvern annan.
Í fyrri hálfleik spiluðum við sem lið og fórum eftir okkar reglum en seinni hálfleikurinn var sorglegur. Ég óska eftir að sjá aldrei svona aftur frá mínu liði," sagði Viðar Örn í samtali við Austurfrétt eftir leikinn.
Aðeins 48 tímar voru á milli leikja Hattar en Grindavík fékk sólarhring meira í hvíld. Viðar vildi samt ekki meina að leikurinn í Njarðvík hefði setið í liðinu í gærkvöldi.
„Við töpum allir saman og ég er hluti af heildinni. Kannski voru einhverjir þreyttir og hefði hefði átt að fara dýpra á bekknum í seinni hálfleik en fyrst og fremst var ég ósáttur við hvað við vorum andlausir og vorum einstaklingar á gólfinu í seinni hálfleik."
Heilt yfir virtist hann sáttur við fyrstu leikina í deildinni. „Við spiluðum nokkuð vel stærstan hluta leiksins í Njarðvík en þurfum að læra hvernig á að klára slíka í leiki.
Í Grindavík byrjuðum við sterkt og vorum alltaf inni í leiknum, sama hvaða djöfulsins bulli við áttum í. Við sjáum því að við getum keppt við þessi lið en við þurfum að eiga toppleiki. Ef við spilum 40 mínútur af góðum liðsbolta þá eigum við séns."
Í dag var síðan dregið í 32ja liða úrslitum bikarkeppni karla. Höttur tekur þar á móti B-liði ÍR. Leikið verður helgina 30. október - 2. nóvember.