Kostnaður við fimleika í meðallagi á Egilsstöðum
Kostnaður við fimleikaæfingar fyrir 8-10 ára hjá Hetti á Egilsstöðum er í meðallagi sé horft til kostnaðar á landsvísu samkvæmt nýrri könnun verðlagseftirlits ASÍ.Æfingagjaldið fyrir haustönn hjá Hetti er 43.800 krónur eða 10.950 á mánuði. Hæst er gjaldið hjá Gerplu í Kópavogi, 58.197 krónur fyrir önnina en ódýrast hjá Hamri í Hveragerði, 24.899.
Könnuð var verðskrá 15 félaga á landsvísu. Höttur er þar sjöundi í röðinni.
Gjaldið hækkar hjá Hetti um 9% á milli ára, sem einnig er í meðallagi. Aðeins tvö félög hækka ekki verðskrár sínar.
Gert er ráð fyrir 9 mánaða æfingatímabili, þar af 4 mánuðum fyrir áramót og æft sé um 4 tíma á viku. Um hreina verðkönnun er að ræða. Ekki er tekið tillit til hvaða fimleikar eru æfðir og ekki metin þjónusta eða dagskrá.
Þá er ekki tekið tillit til styrkja sveitarfélaga eða fjáraflana né hvort æfingagallar eða keppnisföt væru innifalin í gjaldinu.