Fyrsti heimaleikurinn í kvöld: Hlökkum til að sýna bænum hvað við getum

karfa grindavik hottur 20151018 0029 webHöttur tekur á móti Snæfelli í kvöld í fyrsta leik sínum í úrvalsdeild karla í körfuknattleik. Bandaríkjamaðurinn Tobin Carberry segir leikmennina eiga von á hörkuleik og mikilli stemmingu.

„Liðið er virkilega spennt fyrir að sýna bænum hvað við getum og vonandi getum við landað okkar fyrsta sigri. Samfélagið hér er frábært og ég býst við að andrúmsloftið verði rafmagnað í kvöld," sagði Tobin í samtali við Austurfrétt í morgun.

Höttur tapaði fyrstu tveimur leikjunum gegn Njarðvík og Grindavík um síðustu helgi en var grátlega nálægt sigri í Njarðvík.

Leikmenn meistaraflokks Hattar hafa undanfarna viku keppst við að selja bæjarbúum ársmiða á leiki. Verðlaun eru fyrir þann sem selt hefur mest.

„Það er enn verið að telja en ég þori að fullyrða að ég seldi flesta miða. Það er gaman að fara og hitta fólkið í bænum. Það hefur tekið virkilega vel á móti mér þessa tvo vetur sem ég hef verið hér. Ég fékk smá hjálp frá Maríönnu Jóhannsdóttur sem tengdi mig við fjölda fólks."

Mótherjar kvöldsins eru Snæfell úr Stykkishólmi sem spáð er fallbaráttu eins og Hetti. Leikurinn skiptir því bæði lið miklu máli. Með liðinu leikur Austin Bracey, fyrrum leikmaður Hattar og þjálfarinn Ingi Þór Steinþórsson þjálfar U-15 ára landslið karla þar sem Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, er til aðstoðar.

„Snæfell er með nokkra góða leikmenn og virkilega góðan þjálfara þannig ég býst við að þeir komi austur til að vinna okkur. Ég held að liðin séu álíka sterk og ætli sér bæði að sanna að þau séu betri en fyrstu leikirnir gáfu til kynna. Ég býst við að þetta verði skemmtilegur og spennandi leikur," segir Tobin.

Leikurinn hefst klukkan 18:30 í íþróttahúsinu á Egilsstöðum.

Í blakinu tekur karlalið Þróttar á móti HK um helgina. Liðin mætast fyrst klukkan 20:00 í kvöld og aftur á morgun klukkan 14:00. 

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.