Körfubolti: Sigrinum stolið af Hetti með flautukörfu – myndir

QM1T9963 webHöttur var hársbreidd frá sigri í fyrsta heimaleik sínum í úrvalsdeild karla í körfuknattleik en þriggja stiga flautukarfa kom í veg fyrir það þegar Snæfell fór með sigur af hólmi 60-62. Höttur verður að bæta sóknarleik sinn til að komast áfram í deildinni.

Liðunum var báðum spáð falli fyrir tímabilið og bæði án sigurs í fyrstu tveimur umferðunum. Því var ljóst að mikið væri í húfi.

Fyrstu þrjár sóknir Hattar runnu út í sandinn og segja má að það hafi gefið tóninn fyrir skelfilega sóknarnýtingu liðsins. Snæfellingar byggðu fljótt upp forskot og um miðjan fyrsta leikhluta voru þeir komnir í átta stiga forskot.

Boltinn gekk vel hjá gestunum fyrsta korterið á meðan Hattarmenn þurftu að hafa mun meira fyrir hlutunum og treystu á einstaklingsframtak.

Svæðisvörnin virkaði

Um miðjan annan leikhluta skiptu Hattarmenn í svæðisvörn sem virtist hægja á Snæfellingum. Höttur fór að vinna boltann og fá auðveldari sóknir. Átta stig í röð breyttu stöðunni úr 18-25 í 25-25 og Mirko Stefán Virijevic kom Hetti yfir í fyrsta sinn í leiknum 28-27 þegar tvær mínútur voru til leikhlés.

Sérstaklega tókst Hattarmönnum að hægja á Bandaríkjamanninum Sharrod Wright. Hann hafði skorað níu stig fyrir Snæfell í fyrsta leikhluta en skoraði ekki nema þrjú í öðrum leikhluta. Þau skiptu máli, karfa góð og víti ofan í rétt fyrir leikhlé tryggði Snæfellingum 32-37 forskot í leikhléi

Mikilvæg þriggja stiga karfa

Fyrsta sókn Hattar í seinni hálfleik fór ekki vel þegar Hreinn Gunnar Birgisson lenti illa og slasaðist á sköflungi. Hann kom inn á aftur eftir aðhlynningu en gekk vafinn út úr húsinu að leik loknum.

Snæfell leiddi í upphafi leikhlutans og eftir að Sharrod hafði komið þeim í 38-45 með að fá dæmt víti og gilda körfu brást Viðar Örn Hafsteinsson við með að taka leikhlé. Eftir það komu sjö stig Hattar í röð og jafnt á ný 45-45.

Óskar Hjartarson kom Snæfelli aftur yfir með þriggja stiga körfu og sá munur hélst út leikhlutann sem endaði í 47-50.

Góðar körfur frá Mirko

Mirko Stefán hefði getað verið hetja Hattar og maðurinn sem átti fyrirsagnirnar. Hann kom Hetti niður með þriggja stiga skoti 58-56 þegar fjórar og hálf mínúta voru eftir. Tveimur mínútum síðar skoraði hann næstu körfu og Höttur í fyrsta sinn í leiknum kominn með það mikla forustu að Snæfelli gat ekki jafnað úr næstu sókn, 60-56.

Snæfellingar tóku leikhlé og reynsluboltinn Sigurður Þorvaldsson negldi niður þriggja stiga körfu með 1 mínútu og 40 sekúndur eftir á klukkunni og staðan 60-59.

Bæði lið gerðu sig sek um mistök í sókninni á lokasekúndunum. Ellefu sekúndum fyrir leikslok geigaði síðasta skot Hattar og Snæfellingar lögðu af stað í sókn. Austin Bracey, fyrrum leikmaður Hattar, bar boltann upp og virtist kominn í vandræði en Snæfellingum tókst að hnoða boltanum niður í vinstra hornið.

Þar náði Sharrod að koma sér í loftið og sleppa boltanum áður en flautan gall. Það sem gerðist næst vilja Egilsstaðabúar helst ekki muna.

Afleitur sóknarleikur

Höttur má eiga að hafa spilað fínan varnarleik og haldið Snæfellingum í rúmum sextíu stigum. Baráttan var til staðar því liðið tók um þrefalt fleiri sóknarfráköst en gestirnir. Vandamálin voru í sókninni, tíu prósentum minni skotnýting og aðeins þrjú af 19 þriggja stiga skotum fóru ofan í.

Liðið þarf líka að læra að klára leiki. Það var yfir þegar Njarðvík hóf lokasókn sína í fyrstu umferðinni en fékk þá, líkt og nú, á sig flautukörfu lengst neðan úr vinstra horninu. Atvik sem þessi brjóta niður sjálfstraustið og þú ferð að trúa að það séu allir aðrir en þú sjálfur sem stjórnar örlögum þínum.

Fyrsta kortér leiksins leik Snæfell meira út eins og lið en það breyttist eftir því sem Höttur komst betur inn í leikinn. Tilfinningin er að í heimsókn hafi verið lið sem vart á heima í úrvalsdeildinni og verði því í fallbaráttunni í vetur, þrátt fyrir mikilvægan sigur.

Töff að taka þessu

„Að ná að vinna á svona körfu getur breytt öllu. Bæði liðin voru stigalaus fyrir leikinn þannig það þarf ekkert að ræða mikilvægi þessa skots," sagði Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfellinga, eftir leikinn.

Viðar Örn var súrari. „Það er töff að taka þessu en frammistaðan var ekki betri en þetta. Sóknarlega vorum við skelfilegir Við opnuðum ágætlega en hittum ekki. Ef við höldum liðum undir 70 stigum þá eigum við að vinna. Það er bara skýr krafa.

Við fáum ekkert út úr þessum leik en það eru 19 leikir eftir og nóg í pottinum. Við eigum Keflavík í Keflavík næsta föstudag. Dagkráin verður erfið en við þurfum að safna stigum. Um það snýst þetta. Það hefur ekki gengið enn en kemur að því."

Myndir: Atli Berg Kárason

QM1T0005 webQM1T0018 webQM1T0025 webQM1T0028 webQM1T0036 webQM1T0057 webQM1T0087 webQM1T0114 webQM1T0118 webQM1T0132 webQM1T0151 webQM1T9870 webQM1T9885 webQM1T9895 webQM1T9907 webQM1T9909 webQM1T9914 webQM1T9930 webQM1T9972 webQM1T9988 web

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.