Þróttur vann HK í hörkuleik: Erum ekki enn á þeim stað sem við viljum vera
Þróttur vann seinni leik sinn gegn HK um helgina í úrvalsdeild karla í blaki um helgina í oddahrinu. Þjálfari liðsins segir liðið enn eiga margt inni og einkum skorti leikmenn þess trú á sjálfa sig.HK eru ríkjandi Íslandsmeistarar og unnu fyrri leikinn á föstudagskvöld 0-3 eða 24-26, 21-25 og 22-25 í hrinum.
Þróttur snéri taflinu við daginn eftir og vann 3-2 eftir æsilegan leik sem tók rúmar tvær klukkustundir. Í hrinum fór hann 20-25, 25-19, 16-25, 25-16 og loks 15-11. Þróttur komst í 7-0 í oddahrinunni með uppgjöfum Hlöðvers Hlöðverssonar og þann mun reyndist Kópavogsliðinu ómögulegt að brúa.
Stærsta breytingin á milli leikja var að Matthías Haraldsson var færður úr stöðu frelsingja í kantsmassara og var langstigahæstur á laugardaginn með 23 stig.
Í samtali við Austurfrétt sagði Ana Vidal, þjálfari Þróttar, að Matthías hefði glímt við smávægileg meiðsli og hún ekki verið sannfærð um að hann héldi út tvo leiki í röð með þeim krefjandi stökkum sem krafist sé af smassaranum.
Fleiri breytingar hafi hins vegar orðið á milli leikja. „Það spiluðu allir betur í vörninni. Með Matthías á kantinum höfðum við líka fleiri kosti í sókninni. Við vorum því að mæta þeim 1á1 í blokkinni en ekki 1á2 eins og kvöldið áður."
Hún sagðist ánægð með að vinna seinni leikinn en enn væri nokkuð í að liðið spilaði eins og hún vildi. Liðið sé enn að aðlagast nýjum þjálfara en fyrst og fremst skorti sjálfstraustið.
„Við sjáum meiri hæfileika en þeir. Eftir að hafa horft á upptökur úr öðrum leikjum og frá helginni er ég þeirrar skoðunar að önnur lið í deildinni séu ekki jafn sterk og við höldum.
Við virðumst óttast þau og leyfum þeim að ráða ferðinni. Ef við spilum í leikjum eins og á æfingum þá getum við barist gegn hvaða liði sem er.
Við þurfum samt að æfa oftar saman sem lið en ég hef trú á að við komumst á stað sem við viljum vera á. Ég horfi ekki á frammistöðu einstakra leikmanna. Fyrir mér er það liðið sem skiptir máli og ég horfi ekki endilega á hvort liðið tapar eða vinnur heldur hvernig það spilar."