Gunnlaugur áfram með Hött
Gunnlaugur Guðjónsson verður áfram þjálfari meistaraflokks Hattar í knattspyrnu karla. Einherji og Fjarðabyggð leita hins vegar að nýjum þjálfurum.Rekstrarfélag Hattar sendi í morgun frá sér tilkynningu um að Gunnlaugur yrði áfram með liðið út næstu leiktíð.
Gunnlaugur tók við liðinu um mitt tímabil í fyrra og stýrði því til sigurs í þriðju deild. Í sumar varð liðið í fimmta sæti í annarri deild. Þá stýrði hann liðinu þegar það varð þriðju deildarmeistari sumarið 2006.
Fjarðabyggð leitar að nýjum þjálfara eftir að Brynjar Gestsson gekk frá samkomulagi um að gerast aðstoðarþjálfari Þróttar Reykjavíkur. Brynjar stýrði Fjarðabyggð í þrjú sumur. Undir hans stjórn vann liðið bæði 3. og 2. deild áður en það endaði um miðja fyrstu deild í sumar.
Einn af þeim sem orðaður hefur verið við stöðuna hjá Fjarðabyggð er Víglundur Páll Einarsson en um helgina var staðfest að hann yrði ekki áfram með Einherja.
Hann þjálfaði liðið til sigurs í 4. deild sumarið 2013 og í sumar varð liðið í 4. sæti þriðju deildar. Víglundur Páll spilaði með Fjarðabyggð sumarið 2005.