Blak: Fimm Þróttarar í landsliðsverkefnum um helgina
Fimm leikmenn Þróttar eru í U-17 ára landsliðunum sem taka þátt í Norðurlandamótinu sem haldið er í Kettering í Englandi um helgina.Þær Gígja Guðnadóttir, Heiða Elísabet Gunnarsdóttir og María Rún Karlsdóttir og Særún Birta Eiríksdóttir eru í stelpnaliðinu.
Skammt er á milli verkefna hjá Gígju, Heiðu Elísabetu og Maríu Rún því þær voru í U-19 ára liðinu sem spilaði á Norðurlandamótinu í Danmörku fyrir tveimur vikum. Stelpnaliðið vann Finna í sínum fyrsta leik fyrir hádegi í oddahrinu.
Atli Fannar er í sínu fyrsta landsliðsverkefni en hann spilaði með strákaliðinu sem tapaði 0-3 fyrir Dönum í gær.
Hér heima hefst bikarkeppnin í blaki í kvöld þegar B-lið Þróttar tekur á móti Völsungi í kvennaflokki. Leikurinn hefst í Neskaupstað klukkan 19:00.
Í ár er í fyrsta sinn í langan tíma keppt með útsláttarfyrirkomulagi. Til leiks eru skráð 27 lið, 16 kvennalið og 11 karlalið.
Höttur leikur sinn fjórða leik í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í kvöld. Liðið heimsækir Keflavík í leik sem hefst klukkan 19:15.