„Við erum að rifna úr stolti af þessum krökkum"
Iðkendur í sunddeild Austra á Eskifirði syntu í tólf tíma á föstudaginn í fjáröflunarskyni.Sundið stóð yfir í hálfan sólarhring, frá klukkan tvö á föstudaginn þar til klukkan tvö, aðfaranótt laugardags.
„Iðkendur gegnu í hús og söfnuðu áheitum sem munu renna óskipt í ferðasjóðinn, auk þess sem við seldum veitingar á staðnum. Það eru 43 krakkar að æfa frá Eskifirði og Reyðarfirði en af þeim tóku 39 þátt," segir Björnfríður Ólafía Magnúsdóttir, nýráðin þjálfari deildarinnar.
Stefnan var tekin á að synda 35 kílómetra en þeir urðu rúmlega fimmtíu, þar sem iðkendur syntu 37,150 km og með góðri aðstoð foreldra og annarra náðust alls 56,4 kílómetrar. Allir tóku þátt og lögðu sitt að mörkum – allt niður í fyrstu bekkinga, sem syntu með ugga og kork.
"Alltaf var einhver að synda frá Austra auk þess sem við vorum með aðra braut opna við hliðina og þar var öllum frjálst að synda og safna kílómetrum með okkur.
Ekki liggur enn fyrir hve mikið safnaðist með sundinu. En, við fengum einnig nýverið styrk úr Spretti afreksstjóði ÚÍA og Alcoa en það var úthlutað úr honum á fimmtudaginn og fengum við þar þjálfarastyrk sem fer í menntun þjálfara."
Sterk liðsheild
„Það eru frábærir krakkar sem æfa í sundeildinni, svo jákvæð og glöð og fólkið sem stendur á bak við hvern einn eiga hrós skilið fyrir þeirra hlutverk í öllu saman. Deildin samanstendur einnig að sterkri stjórn, iðkendum og þjálfurum og í sameiningu er hægt að gera hvað sem er. Sund er einstaklingsíþrótt en á mótum og á viðburðum eins og um helgina syndum við saman sem lið og það er svo ánægjulegt.
Syntu undir laginu We are the champions
„Mest spennandi fannst þeim að fá að synda um kvöldið og nóttina. Þegar klukkuna vantaði tíu mínútur í tvö var ég búin að raða krökkunum sem eftir voru í lauginni niður og stungu þau sér hvert af öðru í laugina og syntu öll saman síðustu tíu mínúturnar undir laginu We are the champions.
Það var æðislegt að fylgjast með þeim, þau voru svo dugleg og héldu áfram allan tíma á meðan foreldrarnir stóðu og hvöttu þau til dáða – „gæsahúðar -móment". Allir fóru mjög þreyttir og glaðir að sofa þegar þetta var búið. Ég er að rifna úr stolti af þessum krökkum."