„Fótboltaframtíðin er björt hér fyrir austan"
Líkt og undanfarin ár stóð Tandraberg fyrir knattspyrnuakademíu fyrir iðkendur í 7.-3. flokk karla og kvenna í lok október í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði.Sigurjón Helgi Ásgeirsson, yfirþjálfari yngri flokka í Fjarðabyggð, segir þáttakendur hafa verið í kringum 200, örlítið færri en í fyrra sem var metár í þátttöku. Iðkendur eru allt frá Höfn í Hornafirði og til Vopnafjarðar.
Akademían stendur yfir frá föstudegi og fram á laugardag og samanstendur af æfingum og fyrirlestrum, en í ár var fókusinn á einelti og jákvæðni.
„Þetta byggist upp á grunntækni knattspyrnunnar, því að æfa sendingar, móttöku, tækniæfingum ýmisskonar, skotæfingum og spili. Það eru fyrirlestrar fyrir iðkendur í 5. til 3. flokks, en við teljum nauðsynlegt að krakkarnir fái þá til þess að vera betur undirbúin fyrir mannleg samskipti og lífið almennt," segir Sigurjón Helgi.
„Svona akademía hefur mikla þýðingu fyrir krakkana, þar kynnast þau hvort öðru og hitta nýja þjálfara. Þeir þjálfarar sem hafa komið til okkar eru frá stórum félögum úr Reykjavík, einnig landsliðsmenn- og konur, auk þess sem við höfum fengið þjálfara héðan að austan til vera með okkur.
Ég tel fótboltaframtíðina bjarta hér fyrir austan eins og sást í sumar, en þrjú lið verða í 1. deild, tvö í 2. deild og eitt í 3. deild næsta sumar.
Árgangarnig okkar í yngri flokkunum eru sterkir. Við höfum verið í samstarfi við Hött í 3.flokki kvenna síðastliðin tvö ár og hefur það gengið mjög vel. Sá flokkur spilaði undir merki ÚÍA í sumar og komst upp um deild, en töpuðu þeir í undanúrslitum fyrir KR eftir vítaspyrnukeppni og bráðabana.
Coerver Coaching og yngri flokkar Fjarðabyggðar í samstarf
Coerver Coaching og yngri flokkar Fjarðabyggðar hafa gert með sér samkomulag til næstu þriggja ára.
Coerver Coaching er hugmynda- og æfingaáætlun í knattspyrnu sem þjálfar upp færni og hentar öllum aldurshópum en sérstaklega aldrinum 6-16 ára á öllum getustigum. Hugmyndafræði sem einblínir á að þróa færni einstaklingsins og leikæfingar í smáum hópum. Coerver Coaching var stofnað árið 1984 og starfar í 42 löndum víðsvegar um allan heim.
Coerver Coaching mun veita félaginu faglega ráðgjöf og fræðslu í þjálfun barna og unglinga. Auk þess sem iðkendur félagsins munu fá góða þjálfun í æfingaáætluninni.
Yfirþjálfari Coerver Coaching á Íslandi er Heiðar Birnir Torleifsson.