Körfubolti: Höttur átti ekki séns í KR - Myndir
Höttur er enn stigalaus á botninum í úrvalsdeild karla í körfuknattleik eftir 50-85 ósigur gegn Íslandsmeisturum KR á Egilsstöðum í gærkvöldi. Hattarmenn sáu aldrei til sólar í leiknum.KR-ingar stungu af um miðjan fyrsta leikhlut með því að breyta stöðunni úr 10-15 í 10-21. Þar með var kominn á helmingsmunur sem hélst nánast allan leikinn, sama þótt heildarstigum leiksins fjölgað.
Munurinn var fljótt kominn upp í 20 stig í öðrum leikhluta. Hattarmenn virtust stressaðir og gerðu mikið af mistökum í sókninni. Þeir fengu dæmd á sig skref, fóru í vonlaus skot, hentu boltanum út af eða jafnvel beint í hendur KR-inga.
Það var rétt í lok fyrri hálfleiks sem þeir gerðu sig seka um kæruleysi. Annars héldu þeir dampi út í gegn og refsuðu grimmilega. Yngri leikmenn fengu tækifæri og nýttu þau vel, einkum Þórir Þorbjarnarson sem varð þeirra stigahæstur með 18 stig.
Tölfræðin endurspeglast líka í framlagi bekkjar, varamenn Hattar skoruðu 11 stig en 43 hjá KR.
Tobin Carberry skoraði 17 stig hjá Hetti og tók 10 fráköst, sá eini sem kom yfir 10 stigin.
Myndir: Atli Berg Kárason