Leiknir fær ekki keppnisleyfi á Búðagrund
Leiknir spilar í Fjarðabyggðarhöllinni næsta sumar þar sem ekki fæst keppnisleyfi á heimavellinum á Fáskrúðsfirði. Liðið undirbýr sig nú fyrir komandi átök í fyrstu deildinni.
„Við munum ekki fá keppnisleyfi á völlinn að Búðagrund, en félög í 1. deild þurfa að undirgangast leyfiskerfi KSÍ, en meðal skilyrða þar er aðstaða áhorfanda, öryggismál, aðstaða dómara, en mikið vantar upp á þessa þætti hjá okkur til þess að við fáum að spila á vellinum,“ segir Magnús Ásgrímsson, formaður knattspyrnudeildar Leiknis.
Liðið þurfti með leiki sína inn í höllina á Reyðarfirði síðasta sumar þar sem völlurinn að Búðargrund gréri seint og illa. Það kom ekki að sök því liðið spilaði frábærlega og fór upp úr annarri deild.
Liðið undirbýr sig nú fyrir átökin í fyrstu deildinni og fyrir helgi var samið við átta leikmenn sem aldir eru upp hjá félaginu en þeir eru: Almar Daði Jónsson, Arek Grzelak, Dagur Ingi Valsson, Dagur Már Óskarsson, Hilmar Freyr Bjartþórsson, Marinó Óli Sigurbjörnsson, Sólmundur Aron Björgúlfsson og Tadas Jocys.
Þrír aðrir leikmenn eru á samningi og semja á eftir við fleiri. Kristófer Páll Viðarsson spilar áfram með Leikni en hann er samningsbundinn úrvalsdeildarliði Víkings Reykjavík.
Magnús segir stefnuna að byggja á heimamönnum en liðið verður styrkt. „Við ætlum að reyna að spila þetta aðallega á okkar strákum, en stefnum á að vera með þrjá erlenda leikmenn, höfum þegar samið við tvo Spánverja, þá Julio Rodriguez sem var hjá okkur síðastliðið sumar og Sergio Cuesta sem kemur nýr inn.“
Líkt og síðustu ár tekur Leiknir þátt í Powerade-mótinu á Akureyri sem hefst með leik gegn KA á laugardag. Lengjubikarinn tekur síðan við þar sem Leiknir er meðal annars í riðli með Íslandsmeisturum FH og nafna sínum úr Reykjavík.
„Við erum með samheldinn og flottan hóp og ætlum okkur að taka þetta á gleðinni.“