Benedikt Þorvaldur Guðgeirsson Hjarðar valinn íþróttamaður Hattar
Körfuknattleiksmaðurinn Benedikt Þorvaldur Guðgeirsson Hjarðar var í gær útnefndur íþróttamaður Hattar fyrir árið 2015. Hjálmþór Bjarnason og Hrafnhildur S. Þórarinsdóttir hlutu starfsmerki félagsins.
Viðurkenningarnar voru afhendar á árvissri þrettándagleði í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum í gærkvöldi.
Benedikt var fyrirliði Hattarliðsins sem tryggði sér sæti í úrvalsdeild síðasta vor. Í umsögn segir að hann hafi lagt mikið á sig til að ná góðum árangri og sé góð fyrirmynd fyrir yngri kynslóðina um hvernig hægt sé að leggja sitt af mörkum fyrir félagið, jafnt innan vallar sem utan.
Þá er komin á sú hefð að afhenda einnig starfsmerki Hattar fyrir áralanga vinnu í þágu félagsins. Hjálmþór og Hrafnhildur fengu þau í gær.
Hjálmþór starfaði árum saman innan frjálsíþróttadeildar Hattar, var gjaldkeri hennar í rúm sex ár og var viðriðin móthald bæði innan fjórðungs og utan.
Hrafnhildur hefur bæði verið formaður fimleika- og skíðadeildar Hattar auk þess að sitja í yngriflokkaráði knattspyrnudeildar og taka virkan þátt í foreldra starfi ýmissa deilda.
Benedikt verður í eldlínunni í kvöld þegar Höttur tekur á móti Njarðvík í fyrsta leik ársins í úrvalsdeildinni klukkan 18:30.
Þá útnefndu aðrar deildir Hattar íþróttamenn sína. Þeir eru sem hér segir:
Blak: Valgerður Dögg Hreinsdóttir
Fimleikar Arna Ormarsdóttir
Frjálsíþróttir: Helga Jóna Svansdóttir
Knattspyrna: Runólfur Sveinn Sigmundsson
Körfubolti: Benedikt Þ. Guðgeirsson Hjarðar