Körfubolti: Höttur í úrslitakeppnina í fyrsta sinn
Höttur er kominn í úrslitakeppni Íslandsmóts karla í körfuknattleik í fyrsta sinn eftir 87-82 sigur á Tindastóli á fimmtudag. Höttur snéri leiknum sér í vil á lokamínútunum.Tindastóll, sem er ríkjandi Íslandsmeistari og spilaði í úrslitum bikarkeppninnar fyrir viku, fór betur af stað og var yfir 13-18 yfir eftir fyrsta leikhluta. Þrátt fyrir fyrri afrek skipti þessi leikur Sauðárkróksliðiðið miklu máli, því hefur gengið illa í vetur og þurftu bæði lið sigur til að komast inn í úrslitakeppnina.
Tindastóll byrjaði annan leikhluta mjög vel og var kominn í 16-29 eftir fyrstu tvær mínúturnar. Það var síðan 20-36 yfir en þá átti Höttur góðan kafla, skoraði 10 stig gegn tveimur og minnkaði muninn í 30-38 fyrir hálfleik.
Sveiflur í seinni hálfleik
Þar með var Höttur kominn inn í leikinn. Sveiflur voru í þriðja leikhluta. Höttur breytti stöðunni úr 35-40 í 46-44 og komst þar með yfir í fyrsta sinn í leiknu. Liðið var síðan komið í ágæta stöðu, 54-47 en Tindastóll skoraði þá 11 stig í röð. Gestirnir héldu svo forskotinu út leikhlutann og leiddu eftir hann, 59-64.
Um miðjan fjórða leikhluta var Tindastóll yfir 67-75 en þá hrökk allt í baklás hjá liðinu, skotin fóru að geiga og leikmenn að gera sig seka um klaufavillur meðan Höttur hélt sjó. Þegar tvær mínútur voru eftir var Höttur kominn yfir, 79-78. Þá munur varð að fimm stigum, 87-82, áður en yfir lauk.
Stigaskorið dreifist jafnt innan Hattarliðsins. Deontaye Buskey skoraði 18 stig, Gustav Suhr-Jessen 16, Obie Trotter 15. Nemanja Knezevic skoraði 14 stig auk þess að taka 12 fráköst og Matej Karlovic skoraði 12 stig í sínum fyrsta alvöru leik síðan í byrjun desember er hann meiddist í baki.
Hvað þýða úrslitin?
Úrslitin þýða að Höttur er kominn í úrslitakeppnina í fyrsta sinn í sögu félagsins. Með sigrinum komst liðið upp í sjöunda sæti en sendi Tindastól niður í það níunda því Stjarnan stakk sér upp á milli með sigri. Höttur er með 22 stig en síðarnefndu liðin tvö 20.
Innbyrðisviðureignir ráða endanlegri röð liðanna. Þær eru Hetti hagstæðar og því er liðið komið áfram. Sjöunda sætið er þó ekki fast í hendi. Höttur mætir Álftanesi næsta fimmtudag og myndi með sigri stela sjötta sætinu. Að sama skapi fellur liðið niður í áttunda sætið ef það tapar og Stjarnan sömuleiðis en Tindastóll vinnur.
Mynd: Daníel Ceckic