Körfubolti: Mikilvægt að skilja FSu eftir
Höttur tekur á móti FSu í úrvalsdeild karla í körfuknattleik á Egilsstöðum í kvöld. Liðin eru bæði nýliðar í deildinni og hefur gengið illa að fóta sig þar því þau eru neðst og stigalaus. Þjálfari Hattar segir mikilvægt að vinna fyrsta leikinn í kvöld.„Við höfum nokkrum sinnum verið nálægt því að landa okkar fyrsta sigri. Þetta er gríðarlega mikilvægur leikur til að fá fyrsta sigurinn til að skilja FSu eftir fyrir neðan okkur og nálgast hin liðin," segir Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.
Hann segir að allir leikmenn Hattar eigi að vera heilir og tilbúnir í leikinn. „Ég vona að við séum klárir í að setja saman góðan leik."
Höttur spilaði fyrstu þrjá leikina ágætlega en tókst þó ekki að vinna. Í kjölfarið fylgdu tvö slæm töp gegn KR og Keflavík. Í síðustu viku tapaði liðið naumlega fyrir Tindastóli í útileik.
„Við spiluðum ágætis leik þar og sigurinn hefði getað dottið okkar megin ef við hefðum verið ögn snjallari og hepparni."
FSu mætir til leiks í kvöld með nýjan Bandaríkjamann. Chris Woods, sem síðustu ár lék með Haukum og Val, tekur stöðu Chris Anderson. Viðar hefur hins vegar mestar áhyggjur af skyttum FSu.
„Hann er sæmilega þekktur. Þeir nærast hins vegar á þriggja stiga skotum þannig við þurfum að stoppa skotmennina. Síðan þurfum við að spila upp á okkar styrkleika, að fara inn í teig og klára færin."
Hann segir það ekki endilega hag að þekkja FSu. „Við spiluðum þrisvar við þá í fyrra, unnum heimaleikina tvo en töpuðum á Selfossi. Þeir þekkja okkur alveg eins og við þá. Bæði lið hafa bætt við sig síðan í fyrra og þetta verður hörkuleikur."
Briddsspilarar hittast á Skjöldólfsstöðum á morgun og spila þar svokallaðan tvímenning fram á kvöld. Kjötsúpa verður í boði ef menn fást til að leggja frá sér spilin um stund.