Viðurkenningin skiptir miklu máli
María Rún Karlsdóttir, blakkona, var kosin íþróttamaður Þróttar í Neskaupstað um helgina.María Rún er aðeins 16 ára gömul, en þrátt fyrir það fyrirliði meistaraflokksliðs Þróttar og stigahæst leikmanna liðsins. Hún var einnig valin efnilegasti leikmaður Mizuno deildarinnar fyrir leiktímabilið 2014-2015 og er einnig stigahæst allra leikmanna deildarinnar.
María Rún spilaði sinn fyrsta A-landsleik á æfingamóti á Ítalíu um páskana og spilaði fyrir Íslands hönd bæði með U19 í Danmörku og U17 í Englandi á norðurlandamótum í október.
Í samtali við Austurfrétt segir hún mikinn áhuga á íþróttinni helst skýra þennan góða árangur.
„Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri. Ég vil leggja mig fram því ég hef gaman að þessu. Ég mæti á allar æfingar, hef mikinn stuðning frá foreldrum mínum, hef haft góða þjálfara síðustu ár og síðast en ekki síst eru það stelpurnar í Þrótti sem skipta miklu máli.
Að fá viðukenningu fyrir það sem ég er búin að vinna vel fyrir skiptir miklu máli fyrir mig – það eflir mig sem íþróttamann og gerir það að verkum að ég legg enn harðar að mér."