Heimaleik Þróttar frestað vegna veðurs
Heimaleik meistaraflokks kvennaliðs Þróttar í Neskaupstað sem fram átti að fara á laugardag hefur verið frestað.Áætlað var að Þróttur tæki á móti HK í íþróttahúsinu á Fáskrúðsfirði, en vegna slæmrar veðurspár hefur hann verið blásinn af.
„Ástæðan fyrir því að leikurinn átti að fara fram á Fáskrúðsfirði er sú að íþróttahúsið í Neskaupstað var tvíbókað á laugardag. Við vorum þó alveg tilbúnar til þess að spila á Fáskrúðsfirði, það hefði bara verið skemmtilegt," segir Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir, formaður blakdeildar Þróttar.
Líklegt er að leikurinn fari fram í Neskaupstað, laugardaginn 19. desember, en það verður nánar auglýst síðar.