Körfubolti: Meira sjálfstraust í liði Hattar – Myndir
Besti sóknarleikur sem Höttur hefur sýnt á keppnistímabilinu dugði ekki til að tryggja liðinu sæti í átta liða úrslitum bikarkeppni karla í körfuknattleik þegar liðið tapaði 89-96 fyrir Þór Þorlákshöfn á heimavelli í gær.Þórsarar skoruðu sex fyrstu stigin í gær og voru yfir 4-11 en þá kom góður kafli Hattarmanna sem skoruðu tíu stig í röð. Að loknum fyrsta leikhluta voru þeir 21-19 yfir.
Jafnt var 24-24 en þá kom góður kafli Þórsara sem komust í 28-38. Þeir spiluðu sérlega góðan sóknarleik og negldu meðal annars niður fjórum þriggja stiga körfum á þessum kafla meðan skot Hattarmanna geiguðu.
Í hálfleik var staðan 42-50 en eftir þennan kafla kom það í hlut Hattar að elta leikinn. Þeir náðu reyndar að jafna 56-56 um miðjan þriðja leikhluta á kafla þar sem Mirko Stefán Virijevic fór fyrir þeim en fyrirliði Þórs, Emil Karel Emilsson, svaraði strax með þriggja stiga körfu.
Þórsarar voru ekki langt frá en eftir átta stig frá Emil Karel í röð var staðan 67-72 þegar þriðja leikhluta lauk.
Höttur náði að jafna í 76-76 og eftir það munaði hélst munurinn í 1-3 stigum. Þá kom styrkur Þórsara í ljós. Til þessa höfðu skyttur liðsins leitt stigaskorið og landsliðsmiðherjinn Ragnar Nathanaelsson haft sig hægan.
Nú var boltanum spilað upp á hann og á lokakaflanum skoraði hann mikilvægar körfur og greip mikilvæg sóknarfráköst. Sérstaklega náði hann þeim eftir að Mirko fór út af með sína fimmtu villu eftir brot á Rangari.
Hattarmenn reyndu að klóra í bakkann og Tobin Carberry minnkaði muninn í 89-93 með glæsilegri þriggja stiga körfu þegar 20 sekúndur voru eftir en það var líka þeirra síðasta.
Í gær fylgdi Höttur eftir góðum leik gegn Stjörnunni á fimmtudagskvöld en allt annað hefur verið að sjá liðið í þessum tveimur leikjum en flestum öðrum í haust. Liðið virðist hafa aukið sjálfstraust og meiri ánægju af leik sínum en áður.
Þetta sást best í baráttunni við hæsta mann Íslands. Jafnvel smæstu menn Hattar keyrðu óhikað að körfunni og stukku upp í skot þótt Ragnar stæði þar undir þeim. Þótt hann verði tvö skot héldu Hattarmenn áfram og sóttu að körfunni í næstu sókn.
Tobin Carberry átti stórleik og náði hinni eftirsóttu þreföldu tvennu, skoraði 39 stig, tók 12 fráköst og sendi 10 stoðsendingar. Þær kröfur eru hins vegar gerðar til hans í keppni þar sem aðeins er leyfður einn erlendur leikmaður í liði og Höttur treysti á hann sem sinn langbesta mann.
Fleiri leikmenn eru hins vegar að vakna til lífsins. Mirko skoraði 18 stig, Eysteinn Bjarni Ævarsson 18, Hreinn Gunnar Birgisson 9, auk 10 frákasta og Benedikt Þorvaldur Guðgeirsson Hjarðar 7.
Í lið Þórs skoraði Vance Hall 29 stig, Emil Karel 28 og Ragnar 11 auk þess að taka jafn mörg fráköst.