Viðar Örn: Erum að verða betri í smáum skrefum
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var sáttur við leik Hattar þrátt fyrir tap gegn Þór Þorlákshöfn í 16 liða úrslitum bikarkeppni karla í körfuknattleik. Þjálfari Þórs sagði mótspyrnu Hattar ekki hafa komið á óvart.„Það var jákvætt í leik okkar, sérstaklega í sókninni þótt við næðum ekki að opna fyrir skot eins og við ætluðum á lokamínútunni og getum hitt betur fyrir utan.
Þórsliðið er þrusugott og með góða skotmenn sem skoruðu risakörfur í lokin og Ragnar (Nathanaelsson) tók mikilvæg sóknarfráköst," sagði Viðar Örn eftir leikinn.
Þór vann 89-96 en var sjaldnast nema með 3-5 stiga forskot í leiknum. Eftir afar erfiða byrjun sjást batamerki á leik Hattar sem var ekki fjarri því að vinna Stjörnuna á heimavelli á fimmtudagskvöld.
„Við erum að verða betri í smáum skrefum. Við stóðum okkur ágætlega gegn Stjörnunni og enn betur í dag .
Við reynum að nálgast leikina öðruvísi, án þess að vera stressaðir heldur mætum í alla leiki til að skilja allt eftir á gólfinu. Síðan tökum við hlutina skref fyrir skref og sjáum hvert það leiðir. Við unnum næstum í dag og mætum Þór aftur í deildinni á föstudagskvöld."
Viðari til aðstoðar á bekknum í gær var Bjarki Ármann Oddsson, fyrrum þjálfari Þórs Akureyri og leikmaður Hattar en hann er nýtekinn við sem íþrótta- og tómstundafulltrúi í Fjarðabyggð.
„Hann er fluttur á Eskifjörð og kemur vonandi meira inn í þetta. Það er mikil hjálp í honum og betur sjá augu en auga."
Þá var Höttur án Helga Einarssonar í gær sem var veikur. „Við söknuðum hans í dag. Strákarnir komu vel inn af bekknum en við hefðum þurft kílóin hans í teiginn."
Einar Árni Jóhansson, þjálfari Þórs, sagðist ánægður með hvernig hans menn hefðu klárað erfiðan leik.
„Hattarmenn voru frábærir í þriðja leikhluta á sama tíma og vörnin var ekki jafn sterk hjá okkur og í fyrri hálfleik. Á tíma vorum við í vandræðum með sóknarfráköstin, Hattarmenn voru búnir að taka 11 slík en við náðum að vinna þau til baka og þeir tóku ekki nema 13 í heildina.
Leikurinn varð erfiður, eins og við reiknuðum með. Það er auðvelt að horfa á stöðuna í deildinni þar sem Höttur hefur tapað öllum níu leikjunum en þeir hafa verið hrikalega óheppnir og hefðu vel getað unnið fjóra leiki. Þeir hafa gott lið og mótspyrnan kom okkur ekki á óvart."
Tobin Carberry leiddi lið Hattar, skoraði 39 stig, tók 12 fráköst og sendi 10 stoðsendingar. „Upplegg okkar var að loka á aðra leikmenn og takmarka hann því við vissum að hann er góður leikmaður. Hann gerði okkur hins vegar erfitt fyrir.
Við unnum flottan liðssigur. Vance (Hall) stýrði liðinu vel og Emil (Kári Emilsson) átti líka hörkuleikur. Við vissum að við þyrftum að spila vel til að vinna hér."