Björgvin Stefán valinn íþróttamaður Leiknis
Björgvin Stefán Pétursson, fyrirliði meistaraflokks karla í knattspyrnu, var nýverið útnefndur íþróttamaður Leiknis Fáskrúðsfirði fyrir árið 2015. Hann segir bætta aðstöðu og dugnað forráðamanna hafa skapað árangurinn.„Ég vil þakka þennan mikla heiður að verða fyrir valinu. Fótboltinn á Fáskrúðsfirði er í miklum blóma og það er öllum sem koma að þessu að þakka," sagði Björgvin Stefán í þakkarávarpi sem móðir hans las upp en hann komst ekki austur til að taka á viðurkenningunni."
„Þeir sem að eru í stjórn, þeir sem að eru að selja inn á leiki, þeir sem sjá til þess að við förum vel nærðir heim eftir leiki, þeir sem eru í gæslu, þeir sem selja kaffi á leikjum. Allir í kringum fótboltann hjá okkur eru búnir að lyfta þessu upp á hærra plan."
Björgvin var lykilmaður Leiknis sem fór beint upp í gegnum aðra deildina í sumar, skoraði tólf mörk og átti fjórar stoðsendingar.
Hann sagði góða þjálfara og aðstöðu skipta máli fyrir íþróttafólk á Fáskrúðsfirði. „Við höfum flott íþróttahús með glæsilegri lyftingaraðstöðu og ágætan húsvörð.
Hinu megin við gatið erum við svo með frábært fótboltahús þar sem menn geta æft allt árið. Þeir sem hafa verið að þjálfa hjá deildinni eru framúrskarandi og ekki er það allstaðar þar sem að yngstu iðkendurnir fá hámenntaða þjálfara."
Síðast en ekki síst þakkaði hann samherjum sínum frá liðnu sumri. „Þetta eru okkar verðlaun. Þetta er ekki síst þrotlaus vinna hjá okkur að koma Leikni í 1. deild."