Blak: Afturelding ýtti Þrótti af toppnum

Afturelding komst í efsta sæti úrvalsdeildar kvenna í blaki með sigri á Þrótti í Neskaupstað um helgina. Karlalið Þróttar hefndi fyrir þær ófarir með tveimur sigrum.

Afturelding hafði yfirhöndina í kvennaleiknum, sem leikinn var á laugardag, og vann þar 0-3. Þróttur vann reyndar á eftir því sem á leið leikinn.

Afturelding vann fyrstu hrinuna 17-25 og hafði mest tíu stiga forskot um miðbik hennar, 7-17. Afturelding gaf strax tóninn í annarri hrinu með að skora fyrstu fjögur stigin og vann hana 14-25.

Þriðja hrinan var besta hrina Þróttar þar sem liðið var sex sinnum einu stigi yfir, síðast 15-14. Afturelding náði þá undirtökunum á ný, síðast var jafnt 20-20 en gestaliðið vann hrinuna 22-25.

Þróttur er í þriðja sæti deildarinnar með 13 stig, einu á undan Stjörnunni en þremur á eftir HK í öðru sæti og fjórum á eftir Aftureldingu sem er á toppnum. Þróttur og HK hafa leikið sex leiki en Afturelding og Stjarnan sjö.

Fjarverandi í fyrstu hrinu

Þrátt fyrir að vera gestkomandi var það Aftureldingar sem mættu strax til leiks í fyrri leik karlaliðanna á föstudagskvöld. Þróttarliðið lét hins vegar bíða eftir sér og tapaði fyrstu hrinunni 14-25. Þróttur hefndi hins vegar strax með sigri í annarri hrinu, 25-15.

Síðustu hrinurnar tvær urðu afar jafnar. Þróttur hafði frumkvæðið í þriðju hrinu en af harðfylgni jöfnuðu gestirnir í 23-23. Þróttur skoraði síðustu stigin tvö og vann hana 25-23.

Fjórða hrinan varð einnig afar spennandi. Afturelding náði forskotinu byrjun og komst í 6-10 en þá kom magnaður kafli Þróttar sem komst í 19-13. Afturelding svaraði með sex stigum í röð og jafnaði í 19-19.

Aftur var Þróttur með leikinn í höndum sér í stöðunni 23-20 en Afturelding skoraði þá þrjú stig í röð. Svo fór að hrinan fór í upphækkun þar sem Matthías Haraldsson skoraði þrjú síðustu stig Þróttar sem vann 28-26.

Öruggur sigur á laugardegi

Seinni leikurinn á laugardag var líka afar jafn þótt Þróttur færi með 3-0 sigur af hólmi.

Sveiflur voru í fyrstu hrinu, Afturelding var yfir þar til staðan var 10-10, þá skoraði Þróttur fjögur stig í röð sem Afturelding vann strax upp aftur.

Þróttur var yfir 22-20 en Afturelding komst yfir með þremur stigum í röð og var yfir 23-24 og 24-25. Þróttur jafnaði í 25-25, komst yfir 26-25 og kláraði loks hrinuna 28-26.

Þróttur leiddi nær alla aðra hrinu og vann hana 25-21. Svipað var uppi á teningnum í þeirri þriðju sem Þróttur vann 25-19.

Þróttur er í þriðja sæti með 17 stig eftir 10 leiki. Talsverðar sveiflur þarf til að liðið annað hvort fari upp eða niður á við.

Mynd: Þróttur Neskaupstað

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar