Telma Ívarsdóttir semur við Breiðablik

Telma Ívarsdóttir frá Neskaupstað hefur skrifað undir þriggja ára samning við meistaraflokk Breiðabliks knattspyrnu.


Telma, sem er aðeins 16 ára, hefur æft knattspyrnu með Þrótti og Fjarðabyggð upp alla yngri flokkana. Hún spilaði lengst af frammi en árið 2012 fór hún að æfa mark.

Telma segir að mörg lið hafi haft samband við sig að undanförnu, en Breiðablik varð fyrir valinu.

„Ég þekki vel til þar, pabbi þekkir þjálfarann og landsliðsþjálfarinn minn er einnig að þjálfa innan félagsins," segir Telma.

Telma hefur æft með Blikum síðan í ágúst og er í Menntaskólanum í Kópavogi. Hún segir mikinn mun á því að æfa fyrir austan og sunnan.

„Ég er búin að æfa með þeim síðan í ágúst og andinn innan liðsins er alveg frábær. Mér finnst mjög mikill munur á því að æfa með þeim eða Fjarðabyggð. Þarna er ég auðvitað að æfa með A-landsliðskonum og mjög efnilegum hópi. Það ríkir 100% metnaður innan liðsins og í félaginu öllu – ekki bara á leikjum, heldur á öllum æfingum, en það fannst mér oft vanta fyrir austan.

Ég stefni svo auðvitað ótrauð á því að komast í aðal-landsliðið," segir Telma, sem á að baki 14 leiki með U-17 landsliðinu síðan 2013.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.