Þorbjörg Ólöf íþróttamaður UÍA
Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir, blakkona úr Þrótti, er íþróttamaður UÍA árið 2012. Þetta var tilkynnt á þingi sambandsins sem haldið var í Neskaupstað í síðustu viku.Þorbjörg Ólöf var kjölfestan í ungu Þróttarliði sem á árinu varð í öðru sæti í bæði Íslandsmóti og bikar þrátt fyrir að hafa misst nær allt byrjunarliðið í upphafi keppnistímabils. Hún var valin í íslenska landsúrtakið og frelsingi ársins í Mikasa-deild kvenna.
Auk þess að keppa í íþróttinni hefur Þorbjörg gegnt ýmsum störfum fyrir bæði Blaksambandið og blakdeild Þróttar. Til dæmis má nefna að hún var mótsstjóri á yngri flokka móti sem haldið var í Neskaupstað um helgina.
Við sama tækifæri fengu nokkrir einstaklingar heiðursmerki fyrir vel unnin og óeigingjörn störf í þágu austfirskra íþrótta. Stefán Þorleifsson og Jóhann Tryggvason fengu gullmerki Ungmennafélags Íslands og Grímur Magnússon og Þóroddur Seljan gullmerki Íþrótta- og Ólympíusambandsins.
Árni Guðjónsson, Björgúlfur Halldórsson, Brynja Garðarsdóttir, Eysteinn Þór Kristinsson, Helga Skúladóttir, Jenný Jörgensen, Karl Rúnar Róbertsson og Vilberg Einarsson fengu starfsmerki UÍA.