Kristín Salín: Þetta eru bestu áhorfendur í heimi

kristin_salin.jpgKristín Salín Þórhallsdóttir, fyrirliði Þróttar, segir áhorfendur hafa leikið stórt hlutverk í 3-1 sigri liðsins í fyrsta leik gegn HK um Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna í Neskaupstað í gærkvöldi. Róandi hafi verið að vera alltaf skrefinu á undan á dramatískum lokamínútum

„Við vorum alltaf stigi yfir og maður er heldur rólegri við slíkar aðstæður heldur en stigi undir,“ sagði Kristín í samtali við Austurfrétt eftir leikinn í gær. Þróttur gat þrisvar tryggt sér sigur í fjórðu hrinu sem vannst að lokum 29-27.

Staðan hefði getað verið önnur. Í byrjun hrinunnar voru tvö stig dæmd af Þrótti og einu bætt á HK þar sem liðið gerði sig sekt um ranga sendiröð. „Við gerðum það fyrir þjálfarann okkar að bæta upp fyrir þetta.“

Leikurinn tafðist um tuttugu mínútur á meðan dómararnir fóru yfir málið og úrskurðuðu í málinu. Kristín segir að Þróttarliðið hafi einfaldlega beðið rólegt á meðan því stóð. „Við héldum okkur heitum og áhorfendur byrjuðu að klappa og peppa okkur upp.“

Þegar hléinu lauk skoruðu Þróttarstelpur fimm stig í röð. Í hléinu höfðu áhorfendur staðið á fætur og byrjað að búa til hávaða og stuðning. Því héldu þeir áfram til loka. „Þetta eru bestu áhorfendur í heimi!“ fullyrti Kristín.

Hún segir mikilvægt að hafa unnið fyrsta leikinn í rimmunni. Það efli sjálfstraustið fyrir næsta leik í Kópavogi annað kvöld. „Við mætum hressar og kátar til leiks. Helsti gallinn er að við höfum ekki okkar áhorfendur þar.“

Með sigrinum í gærkvöldi kom Þróttur fram ákveðnum hefndum gegn HK eftir 2-3 tap í úrslitum bikarkeppninnar fyrir tæpum tveimur vikum.

„Við vorum búnar að æfa vel og höfðum svör við flestu því sem HK bauð upp á. Á köflum dettur móttakan niður hjá okkur og þar gerum við sjálfum okkur fyrir. Þegar allt fer í gang hjá okkur er fátt sem stöðvar okkur.“.


 

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.