Hattarmenn með U-18 landsliðinu í Svíþjóð
Eysteinn Bjarni Ævarsson leikmaður Hattar lék með landsliði Íslands í körfuknattleik skipuðu leikmönnum 18 ára og yngri á norðurlandamótinu sem fram fór í Solna í Svíþjóð dagana 7. – 12. maí. Viðar Örn Hafsteinsson þjálfari Hattar var aðstoðarþjálfari landsliðsins á mótinu. Landsliðið lék undir stjórn Inga Þórs Steinþórssonar þjálfara úrvalsdeildarliða Snæfells í Stykkishólmi. Eysteinn Bjarni lék alla leiki liðsins á mótinu og var í byrjunarliði í þremur þeirra. Hann skoraði 2.8 stig og tók 4.6 fráköst að meðaltali auk þess að leika vel í vörninni.Eysteinn var í lykilhlutverki í miklum spennuleik gegn Eistum en hann skoraði jöfnunarkörfu í lok venjulegs leiktíma og sendi leikinn þannig í framlengingu þar sem Ísland hafði síðan að lokum sigur, 103-102 eftir tvöfalda framlengingu.
Íslenska liðið hafði betur í fjórum af fimm leikjum sínum og vann til silfurverðlauna á mótinu. Ekki vantaði mikið uppá í leik gegn Finnum sem tapaðist með 6 stigum en Finnar stóðu uppi sem norðurlandameistarar.