Fótbolti: Stærsti deildarsigur Fjarðabyggðar

hottur kv 01062013 0022 webKnattspyrnufélag Fjarðabyggðar vann sinn stærsta deildarsigur frá stofnun þegar liðið burstaði ÍH á Norðfjarðarvelli á föstudagskvöld 11-1 í þriðju deild karla. Hafnarfjarðarliðið átti ekki góða helgi á austfirskum knattspyrnuvöllum því í dag tapaði liðið 7-0 fyrir Huginn.

Það var Brasilíumaðurinn Jerson dos Santos sem olli ÍH mestum skaða á föstudagskvöldið en hann skoraði fimm mörk í leiknum. Hann var mjög lunkinn við að hanga í aftasta varnarmanni og nýta sér hraða sinn þegar langar sendingar komu fram úr vörninni.

Loksins skoraði Andri Þór

Hafi leikurinn verið ánægjulegur fyrir Fjarðabyggðarliðið í heild var hann sérstaklega góður fyrir Andra Þór Magnússon. Sá hafði fyrir leikinn spilað 149 leiki fyrir félagið í deild og bikar en aldrei skorað mark.

Hann hefur ýmist spilað sem bakvörður eða miðvörður en sjaldan fengið að fara fram í hornspyrnum eða slíkum leikatriðum sem skila oftast bestu færum varnarmanna.

Í fyrri hálfleik á föstudaginn var Andri í stöðu hægri kantmanns og skoraði ekki bara sitt fyrsta mark, heldur annað líka. Það fyrra kom eftir fyrirgjöf frá vinstri sem fjöldi leikmanna hafði misst af og virtist stefna út af þegar Andri kom askvaðandi á stöngina fjær og potaði boltanum inn.

Seinna markið var glæsilegt en hann geystist þá upp hægri kantinn og skaut fallegu bogaskoti frá vítateigshorninu yfir markvörðinn í hornið fjær.

Árangur áfram

Víkingur Pálmason, Jóhann Ragnar Benediktsson, Sveinn Fannar Sæmundsson og Sigurjón Egilsson bættust á markaskoraralistann í seinni hálfleik en staðan var 6-0 í leikhléi.

Eiríkur Kúld skoraði þó glæsilegasta mark leiksins fyrir gestina. Hann lék upp vinstri kantinn og í áttina að vítateigshorninu. Þar lét hann skotið ríða af og boltinn sveif efst í vinkilinn fjær.

Úr eldinum í öskuna

Ekki tók mikið betra við í seinni leik ÍH gegn Huginn á Fellavelli í dag. Staðan í hálfleik var ekki nema 3-0 en Seyðfirðingar bættu við fjórum mörkum í seinni hálfleik.

Darko Vidanovic skoraði þrennu fyrir Huginn, Friðjón Gunnlaugsson tvö mörk og Nik Chamberlain og Marko Nikolic sitt markið hvor.

Fjarðabyggð er efst í deildinni með níu stig eftir fjóra leiki en Huginn um miðja deild með þrjú stig úr tveimur leikjum. Leiknir, sem átti frí um helgina, er í öðru sæti með níu stig eftir þrjá leiki og markatöluna 14-1.

Karlalið Hattar í vandræðum

Tímabilið byrjar illa hjá Hetti í annarri deild karla en liðið hefur aðeins fengið eitt stig úr fyrstu fjórum leikjunum. Um helgina tapaði liðið 1-4 fyrir Knattspyrnufélagið Vesturbæjar á Fellavelli.

Fyrri hálfleikur var barningur en eftir að Tómas Agnarsson kom gestunum yfir á 24. mínútu náðu þeir stjórn á leiknum. Mistök í vörn Hattar færðu KV mönnum annað markið sem Einar Már Þórisson skoraði á 45. mínútu.

Miðvörðurinn Joe Lamplough fékk rautt spjald á 49. mínútu fyrir glórulausa tæklingu aftan frá við miðlínu. Manni færri virtist Hattarliðið heldur ranka við sér og tókst Högna Helgasyni að koma boltanum í netið á 71. mínútu.

Ilmurinn af hugsanlegu jöfnunarmarkinu sveif ekki lengi fyrir vitum Hattarmanna. Glufur opnuðust í vörninni og Brynjar Orri Bjarnason nýtti sér þær á 72. og 90. mínútu.

Betur gengur hjá kvennaliði félagsins sem unnið hefur báða leiki sína 0-3. Katie Goetzmann, Fanney Þórunn Kristinsdóttir og Heiðdís Sigurjónsdóttir skoruðu mörkin í sigri á Sindra á Höfn í gær.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar