Hattarfólk minntist Heru: Frábær liðsfélagi og ósérhlífin baráttukona

hera minningarrit webFyrsti heimaleikur kvennaliðs Hattar í knattspyrnu var helgaður minningu Heru Ármannsdóttur, fyrrverandi leikmanns liðsins, sem lést í vor langt fyrir aldur fram eftir mikla baráttu við erfið veikindi. Minningarrit um Heru var afhent félaginu til varðveislu í félagsheimili þess.

Hera fæddist árið 1966 en lést þann 26. apríl síðastliðinn eftir langvarandi baráttu við krabbamein. Hera á félagsmetið í lengd ferils en frá fyrsta deildarleik hennar með meistaraflokki kvenna árið 1983 og til þess síðasta, gegn Fjarðabyggð 2009, liðu 26 ár, 2 mánuðir og 16 dagar.

Hera spilaði 64 leiki fyrir Hött og skoraði 14 mörk. Hún spilaði víðar, varð meðal annars Íslands- og bikarmeistari með Val og spilaði með landsliðinu gegn Skotum árið 1995.

En Hera var ekki bara knattspyrnukona. Hattarmenn minnast hennar einnig fyrir frábær störf innan vallar sem utan í flestum deildum félagsins, ekki síst frjálsíþróttum og blaki.

„Það var því mikið skarð sem hún skildi eftir hjá íþróttafélaginu Hetti við fráfall sitt,“ segir í minningarriti sem gefið var út fyrir leik Hattar og Völsungs í fyrstu deild kvenna á föstudagskvöld. „Hera var frábær liðsfélagi, ósérhlífin baráttukona sem gerði miklar kröfur til sín og sinna liðsfélaga.“

Í hálfleik afhentu Lúkas Nói Jónsson, sonur Heru og eiginmaður hennar, Jón Grétar Traustason, félaginu minningarrit með yfirliti yfir helstu afrek Heru og myndum frá ferli hennar sem hengt hefur verið upp í Hettunni, félagsaðstöðu Hattar við Vilhjálmsvöll.

Leiknum lauk með 1-1 jafntefli. Mark Hattarstúlkna var sjálfsmark.

Óttar Ármannsson, formaður rekstrarfélags Hattar, ásamt Lúkasi Nóa og Jóni Grétari með minningarritið. Mynd: Hilmar Gunnlaugsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar