Knattspyrna: „...en láttu þetta ekki koma fyrir aftur!“

fotbolti hottur leiknir 0047 webBirkir Pálsson, fyrirliði annarrar deildar liðs Hattar í knattspyrnu, fékk frí frá leik liðsins um síðustu helgi þar sem hann var að fara að gifta sig. Leiknum, gegn Reyni í Sandgerði, lauk með 2-2 jafntefli og þar með fékk liðið sitt annað stig í sumar.

Þjálfarinn, Eysteinn Hauksson, segir frá því á Facebook-síðu sinni að Birkir hafi í byrjun síðustu viku tilkynnt honum að hann gæti ekki tekið þátt í leiknum á laugardegi því hann væri að fara að gifta sig.

„OK, sagði ég,“ ritar Eysteinn. „.....en láttu þetta ekki koma fyrir aftur!“

Höttur var 0-1 yfir í hálfleik með marki Friðriks Inga Þráinssonar en heimamenn náðu yfirhöndinni með tveimur mörkum í seinni hálfleik. Elvar Ægisson bjargaði Hetti fyrir horn með marki úr vítaspyrnu fimm mínútum fyrir leikslok. Hattarliðið er neðst í deildinni með tvö stig eftir sjö leiki. Næsti leikur er gegn Dalvík/Reyni á Vilhjálmsvelli á föstudagskvöld.

Betur gengur hjá Fjarðabyggð sem er efst í þriðju deild með 15 stig eftir sex leiki. Andri Þór Magnússon, Fannar Árnason, Hákon Þór Sófusson og Víkingur Pálmason skoruðu mörkin í 4-1 sigri á Víði á heimavelli.

Huginn er með jafn mörg stig en ögn lakari markatölu. Liðið vann KFR 4-0 á laugardag. Einar Óli Þorvarðarson, Darko Vidanovic, Marko Nikolic og Nik Anthony Chamberlain skoruðu mörkin.

Eftir frábæra byrjun hefur Leikni fatast flugið í síðustu tveimur leikjum. Á sunnudag tapaði liðið 1-2 fyrir KFR. Almar Daði Jónsson skoraði mark Fáskrúðsfirðinga í fyrri hálfleik.

Huginn og Leiknir mætast í stórleik klukkan 14:00 á laugardag sem er liður í hátíðahöldum á Seyðisfirði í tilefni af 100 ára afmæli Hugins. Fjarðabyggð heimsækir ÍH á fimmtudagskvöld og KFR á sunnudag.

Lið Einherja er í öðru sæti í C riðli fjórðu deildar karla með 13 stig eftir fimm leiki en á leik til góða á Hvíta riddarann sem er með 14 stig. Á laugardag tók Einherji á móti liðinu í þriðja sæti og vann 4-0. Sigurður Donys Sigurðsson skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik en þeir Ingi Þór Gunnarsson og Bjartur Aðalbjörnsson bættu við í seinni hálfleik. Vopnfirðingar spila tvo leiki í kópavogi um helgina, fyrst gegn Ými á laugardag og gegn Vatnaliljum á sunnudag.

Í fyrstu deild kvenna tapaði Fjarðabyggð 0-6 fyrir KR. Reyðfirðingurinn Sonja Björk Jóhannsdóttir skoraði tvö mörk fyrir gestina. Fjarðabyggð er neðst í B-riðli án stiga eftir sex leiki. Höttur, sem er í fimmta sæti riðilsins, heimsækir KR á laugardag.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.