Knattspyrna: „...en láttu þetta ekki koma fyrir aftur!“
Birkir Pálsson, fyrirliði annarrar deildar liðs Hattar í knattspyrnu, fékk frí frá leik liðsins um síðustu helgi þar sem hann var að fara að gifta sig. Leiknum, gegn Reyni í Sandgerði, lauk með 2-2 jafntefli og þar með fékk liðið sitt annað stig í sumar.Þjálfarinn, Eysteinn Hauksson, segir frá því á Facebook-síðu sinni að Birkir hafi í byrjun síðustu viku tilkynnt honum að hann gæti ekki tekið þátt í leiknum á laugardegi því hann væri að fara að gifta sig.
„OK, sagði ég,“ ritar Eysteinn. „.....en láttu þetta ekki koma fyrir aftur!“
Höttur var 0-1 yfir í hálfleik með marki Friðriks Inga Þráinssonar en heimamenn náðu yfirhöndinni með tveimur mörkum í seinni hálfleik. Elvar Ægisson bjargaði Hetti fyrir horn með marki úr vítaspyrnu fimm mínútum fyrir leikslok. Hattarliðið er neðst í deildinni með tvö stig eftir sjö leiki. Næsti leikur er gegn Dalvík/Reyni á Vilhjálmsvelli á föstudagskvöld.
Betur gengur hjá Fjarðabyggð sem er efst í þriðju deild með 15 stig eftir sex leiki. Andri Þór Magnússon, Fannar Árnason, Hákon Þór Sófusson og Víkingur Pálmason skoruðu mörkin í 4-1 sigri á Víði á heimavelli.
Huginn er með jafn mörg stig en ögn lakari markatölu. Liðið vann KFR 4-0 á laugardag. Einar Óli Þorvarðarson, Darko Vidanovic, Marko Nikolic og Nik Anthony Chamberlain skoruðu mörkin.
Eftir frábæra byrjun hefur Leikni fatast flugið í síðustu tveimur leikjum. Á sunnudag tapaði liðið 1-2 fyrir KFR. Almar Daði Jónsson skoraði mark Fáskrúðsfirðinga í fyrri hálfleik.
Huginn og Leiknir mætast í stórleik klukkan 14:00 á laugardag sem er liður í hátíðahöldum á Seyðisfirði í tilefni af 100 ára afmæli Hugins. Fjarðabyggð heimsækir ÍH á fimmtudagskvöld og KFR á sunnudag.
Lið Einherja er í öðru sæti í C riðli fjórðu deildar karla með 13 stig eftir fimm leiki en á leik til góða á Hvíta riddarann sem er með 14 stig. Á laugardag tók Einherji á móti liðinu í þriðja sæti og vann 4-0. Sigurður Donys Sigurðsson skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik en þeir Ingi Þór Gunnarsson og Bjartur Aðalbjörnsson bættu við í seinni hálfleik. Vopnfirðingar spila tvo leiki í kópavogi um helgina, fyrst gegn Ými á laugardag og gegn Vatnaliljum á sunnudag.
Í fyrstu deild kvenna tapaði Fjarðabyggð 0-6 fyrir KR. Reyðfirðingurinn Sonja Björk Jóhannsdóttir skoraði tvö mörk fyrir gestina. Fjarðabyggð er neðst í B-riðli án stiga eftir sex leiki. Höttur, sem er í fimmta sæti riðilsins, heimsækir KR á laugardag.