Öxi þríþraut: Hafliði varði titilinn

oxi 2013 0195 webHafliði Sævarsson, bóndi í Fossárdal, varði titil sinn í flokki einstaklinga í þríþrautarkeppninni Öxi, sem fram fór í dag. Lið Sóknarinnar vann í liðakeppni.

Það var Sóknin, sem þeir Hilmar Gunnlaugsson og Jón Jónsson skipuðu, sem kom fyrst í mark á Djúpavogi í dag á tímanum 3:35,48 klst. Í öðru sæti í liðakeppninni urðu Fossárdalsbræður, Jóhann Atli og Bjartmar Þorri Hafliðasynir, á tímanum 4:14,21.

Hafliði, sem einnig vann einstaklingskeppnina í fyrra, varð fremstur einstaklinga á tímanum 3:43,06. Segja má að Hafliði hafi komist í mark við illan leik því annað dekkið sprakk á reiðhjóli hans skömmu áður en hann kom út á Djúpavog. Hann hélt áfram þar til hjólið var komið á felguna en hann varð að teyma það síðustu metrana.

Svanhvít Antonsdóttir varð fremst í kvennaflokki á tímanum 5:30,33. Engin kona keppti í fyrra svo Svanhvít telst fyrsti sigurvegari í kvennaflokki keppninnar. Í öðru sæti kvennaflokks varð aldursforseti keppninnar, Kristjana Bergsdóttir 61 árs, 24 mínútum á eftir.

Keppnin hófst með 750 metra sjósundi suður yfir Berufjörð. Þegar í land var komið settust keppendur á bak reiðhjólum og hóluðu 13 km á möl upp hinn snarbratta fjallveg Öxi, sem keppnin er kennd við. Efst á Öxinni voru hjólin skilin eftir og hlaupnir 19 km niður í Fossárdal. Þaðan var hjóluð 18 km leið út á Djúpavog.

Glampandi sól var lungan úr deginum og jafnvel heldur hlýtt í veðri fyrir keppni sem þessa. Keppendur sögðust samt þakklátir fyrir sólina sem hefði gert útsýnið í Fossárdal enn fegurra en ella.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.