Knattspyrna: Huginn og Fjarðabyggð jöfn á toppi þriðju deildar

fotbolti leiknir huginn webHuginn og Fjarðabyggð deila efsta sætinu í þriðju deild karla eftir leiki helgarinnar. Höttur náði stigi gegn Dalvík/Reyni en er neðstur í annarri deild. Kvennalið félagsins tapaði fyrir KR.

Huginn tók á móti Leikni í stórleik helgarinnar en leikurinn var hluti af hátíðahöldum í tilefni af 100 ára afmæli Hugins. Heimamenn komust yfir strax á fimmtu mínútu með marki Einars Óla Þorvarðarsonar og hann skoraði annað sex mínútum fyrir leikhlé.

Almar Daði Jónsson minnkaði muninn fyrir gestina í seinni hálfleik en Friðjón Gunnlaugsson innsiglaði 3-1 sigurinn. Fannar Bjarki Pétursson, miðvörður Leiknis, fékk sitt annað gula spjald og þar með það rauða undir lok leiksins.

Fjarðabyggð spilaði tvo leiki á Suðurlandi. Sá fyrri var gegn ÍH í Hafnarfirði á fimmtudagskvöld en Fjarðabyggð vann sinn stærsta deildasigur fyrr og síðar þegar Hafnarfjarðarliðið kom austur í byrjun júní.

Þá var ÍH liðið vængbrotið en liðið er án styrktaraðila og þurftu leikmenn þess að borga sjálfir farið austur sem rýrði leikmannahópinn verulega. Þeir voru betur mannaðir á heimavelli og unnu 1-0.

Fjarðabyggð lék betur á sunnudag þegar liðið spilaði gegn KFR á Hvolsvelli. Jóhann Ragnar Benediktsson skoraði tvisvar og Esben Lauridsen einu sinni á fyrsta kortéri leiksins. Jerson dos Santos og Víkingur Pálmason innsigluðu 2-5 sigur í seinni hálfleik.

Fjarðabyggð og Huginn eru nú efst í deildinni með 18 stig en Huginn á leik til góða. Seyðfirðingar töpuðu fyrsta leiknum en hafa síðan verið á mikilli siglingu. Leiknismönnum hefur á móti fatast flugið og tapað síðustu þremur leikjum en eru í fjórða sæti með tólf stig.

Öll liðin þrjú spila á heimavelli um næstu helgi. Á laugardag tekur Leiknir á móti ÍH og Huginn á móti Grundarfirði sem spilar gegn Fjarðabyggð á sunnudag.

Höttur er í miklum vandræðum í annarri deild karla en liðið gerði 1-1 jafntefli við Dalvík/Reyni á Egilsstöðum á föstudagskvöld. Þeir gerðu sér erfitt fyrir með sjálfsmarki strax á þriðju mínútu. Garðar Már Grétarsson jafnaði hins vegar með laglegu skoti á 45. mínútu. Scott Goodwin bjargaði Hattarmönnum síðan þegar hann varði vítaspyrnu sem dæmd var fyrir hendi.

Nágrannaslagur er framundan í deildinni annað kvöld þegar Höttur heimsækir Sindra. Hattarmenn eru neðstir í deildinni með þrjú stig eftir átta leiki en Hornfirðingar í því sjötta með ellefu stig. Höttur tekur svo á móti Gróttu á föstudagskvöld.

Einherji er enn í efsta sæti C riðils fjórðu deildar eftir tvo leiki í Kópavogi um helgina. Liðið tapaði 3-2 fyrir Ými á laugardag þar sem Gísli Freyr Ragnarsson og Bjartur Aðalbjörnsson skoruðu mörk Vopnfirðinga, hvort í sínum hálfleik.

Á sunnudag vann Einherji Vatnaliljurnar 1-2. Sigurður Donys Sigurðsson skoraði strax á fyrstu mínútu og tíu mínútum síðar bætti Bjartur Aðalbjörnsson við öðru marki. Einherji er með sextán stig eftir sjö leiki, tveimur meira en Hvíti riddarinn í öðru sæti sem á leik til góða.

Kvennalið Hattar tapaði 3-0 fyrir KR í Frostaskjólinu í B riðli fyrstu deildar kvenna á laugardag. Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik en Sonja Björk Jóhannsdóttir kom KR yfir á 68. mínútu og á síðustu tíu mínútunum bætti Vesturbæjarveldið við tveimur mörkum.

Fjarðabyggð tekur á móti Sindra á miðvikudagskvöld á Norðfjarðarvelli og Keflavík í hádeginu á laugardag en Suðurnesjaliðið spilar gegn Hetti á sunnudag.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.