Knattspyrna: Huginn og Fjarðabyggð jöfn á toppi þriðju deildar
Huginn og Fjarðabyggð deila efsta sætinu í þriðju deild karla eftir leiki helgarinnar. Höttur náði stigi gegn Dalvík/Reyni en er neðstur í annarri deild. Kvennalið félagsins tapaði fyrir KR.Huginn tók á móti Leikni í stórleik helgarinnar en leikurinn var hluti af hátíðahöldum í tilefni af 100 ára afmæli Hugins. Heimamenn komust yfir strax á fimmtu mínútu með marki Einars Óla Þorvarðarsonar og hann skoraði annað sex mínútum fyrir leikhlé.
Almar Daði Jónsson minnkaði muninn fyrir gestina í seinni hálfleik en Friðjón Gunnlaugsson innsiglaði 3-1 sigurinn. Fannar Bjarki Pétursson, miðvörður Leiknis, fékk sitt annað gula spjald og þar með það rauða undir lok leiksins.
Fjarðabyggð spilaði tvo leiki á Suðurlandi. Sá fyrri var gegn ÍH í Hafnarfirði á fimmtudagskvöld en Fjarðabyggð vann sinn stærsta deildasigur fyrr og síðar þegar Hafnarfjarðarliðið kom austur í byrjun júní.
Þá var ÍH liðið vængbrotið en liðið er án styrktaraðila og þurftu leikmenn þess að borga sjálfir farið austur sem rýrði leikmannahópinn verulega. Þeir voru betur mannaðir á heimavelli og unnu 1-0.
Fjarðabyggð lék betur á sunnudag þegar liðið spilaði gegn KFR á Hvolsvelli. Jóhann Ragnar Benediktsson skoraði tvisvar og Esben Lauridsen einu sinni á fyrsta kortéri leiksins. Jerson dos Santos og Víkingur Pálmason innsigluðu 2-5 sigur í seinni hálfleik.
Fjarðabyggð og Huginn eru nú efst í deildinni með 18 stig en Huginn á leik til góða. Seyðfirðingar töpuðu fyrsta leiknum en hafa síðan verið á mikilli siglingu. Leiknismönnum hefur á móti fatast flugið og tapað síðustu þremur leikjum en eru í fjórða sæti með tólf stig.
Öll liðin þrjú spila á heimavelli um næstu helgi. Á laugardag tekur Leiknir á móti ÍH og Huginn á móti Grundarfirði sem spilar gegn Fjarðabyggð á sunnudag.
Höttur er í miklum vandræðum í annarri deild karla en liðið gerði 1-1 jafntefli við Dalvík/Reyni á Egilsstöðum á föstudagskvöld. Þeir gerðu sér erfitt fyrir með sjálfsmarki strax á þriðju mínútu. Garðar Már Grétarsson jafnaði hins vegar með laglegu skoti á 45. mínútu. Scott Goodwin bjargaði Hattarmönnum síðan þegar hann varði vítaspyrnu sem dæmd var fyrir hendi.
Nágrannaslagur er framundan í deildinni annað kvöld þegar Höttur heimsækir Sindra. Hattarmenn eru neðstir í deildinni með þrjú stig eftir átta leiki en Hornfirðingar í því sjötta með ellefu stig. Höttur tekur svo á móti Gróttu á föstudagskvöld.
Einherji er enn í efsta sæti C riðils fjórðu deildar eftir tvo leiki í Kópavogi um helgina. Liðið tapaði 3-2 fyrir Ými á laugardag þar sem Gísli Freyr Ragnarsson og Bjartur Aðalbjörnsson skoruðu mörk Vopnfirðinga, hvort í sínum hálfleik.
Á sunnudag vann Einherji Vatnaliljurnar 1-2. Sigurður Donys Sigurðsson skoraði strax á fyrstu mínútu og tíu mínútum síðar bætti Bjartur Aðalbjörnsson við öðru marki. Einherji er með sextán stig eftir sjö leiki, tveimur meira en Hvíti riddarinn í öðru sæti sem á leik til góða.
Kvennalið Hattar tapaði 3-0 fyrir KR í Frostaskjólinu í B riðli fyrstu deildar kvenna á laugardag. Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik en Sonja Björk Jóhannsdóttir kom KR yfir á 68. mínútu og á síðustu tíu mínútunum bætti Vesturbæjarveldið við tveimur mörkum.
Fjarðabyggð tekur á móti Sindra á miðvikudagskvöld á Norðfjarðarvelli og Keflavík í hádeginu á laugardag en Suðurnesjaliðið spilar gegn Hetti á sunnudag.