100 ára afmæli Hugins Seyðisfirði fagnað: Myndir
Seyðfirðingar og gestir þeirra fögnuðu 100 ára afmæli Íþróttafélagsins Hugins með tveggja daga hátíðahöldum um síðustu helgi.
Hátíðadagskrá var í miðbænum á föstudag. Við það tilefni var Rúnar Freyr Þórhallsson útnefndur íþróttamaður Hugins fyrir árið 2012 en hann leikur með meistaraflokki félagsins í knattspyrnu. Hann á einnig fínan feril að baki í fleiri íþróttagreinum, svo sem skíðum.
Ungmennafélag Íslands afhenti Ingibjörgu Svanbergsdóttur starfsmerki fyrir vel unnin störf í þágu félagsins. Ingibjörg starfaði innan frjálsíþróttadeildar Hugins og síðan frjálsíþróttaráðs UÍA í áraraðir og var þannig lykilpersóna í undirbúningi og framkvæmd Sumarhátíða sambandsins.
Þorvaldur Jóhannsson fékk gullmerki Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands fyrir áratuga starf sitt fyrir Huginn. Þorvaldur var einmitt kynnir á hátíðinni á föstudag auk þess sem hann var formaður ritnefndar sem gaf út veglegt afmælisblað.
Nafnarnir Jóhann Stefánsson og Jóhann Hansson fengu starfsmerki Hugins. Þeir hafa báðir þjónað félaginu dyggilega en sá hinn síðarnefndi var formaður þess í samtals 34 ár.
Hátíðahöldin héldu áfram á laugardag. Um morguninn var á dagskránni táknrænn gjörningur þar sem byrjað var að sprengja fyrir göngum undir Fjarðarheiði.
Í grunnskólanum var sýning á munum úr sögu félagsins og myndasýning sem aðgengileg á YouTube.
Þá tók liðið á móti Leikni Fáskrúðsfirði í þriðju deild karla í knattspyrnu og vann 3-1. Með því komst liðið í efsta sæti deildarinnar um stundarsakir.
Um kvöldið var síðan hátíðarkvöldverður og skemmtun í Herðubreið sem um 500 manns sóttu.