Eysteinn Hauks: Ákvörðun sem ég sætti mig fullkomlega við

fotbolti hottur leiknir eysteinnEysteinn Hauksson, fráfarandi þjálfari meistaraflokks Hattar í knattspyrnu, segist skilja og virða þá niðurstöðu stjórnar knattspyrnufélagsins að skipta um þjálfara. Liðið er neðst í deildinni með þrjú stig eftir tíu umferðir og í bullandi fallhættu.

„Þetta er ákvörðun sem ég sætti mig fullkomlega við þótt erfitt sé að horfast í augu við hana. Þetta er ráð sem oft hefur verið notað og stundum virkað. Ég sem fæddur Hattarmaður vona að það geri það,“ sagði Eysteinn í samtali við Austurfrétt í gærkvöldi.

Eysteinn tók við liðinu haustið 2010 og stýrði því upp í fyrstu deild strax á fyrsta sumri. Þangað hafði liðið aldrei komist áður. Dvölin var stutt en liðið féll strax aftur, en naumlega þó. Í sumar hefur síðan hvorki gengið né rekið.

„Stjórnin sýndi mér þolinmæði“

„Ég er sáttur við mitt vinnuframlag til félagsins, sem er auðvitað algjört lykilatriði fyrir mig, en þetta hefur einfaldlega ekki gengið í sumar. Við erum búnir með tíu leiki og átta þeirra hafa verið jafnir en enginn þeirra fallið okkar megin. Vítaspyrnur í fleirtölu hafa farið forgörðum í sama leik svo eitthvað sé nefnt. Það hefur vantað lítið upp á til að ná í 2-3 sigra.

Framkoma stjórnarinnar í gegnum þetta ferli hefur verið eins og hún best getur verið við svona aðstæður. Hún hefur sýnt mér þolinmæði. Það má geta þess að þegar var búið að skipta um þjálfara hjá öðrum félögum í svipuðum málum. Þegar staðan er svona getur maður lítið sagt við svona ákvörðun.

Ég ber ekki kala til nokkurs manns innan félagsins. Ég hef sjálfur upplifað sem leikmaður að vera í liði sem breyttist við að fá nýja rödd inn í klefann.“

„Ég hefði viljað halda áfram“

Eysteinn viðurkennir að hafa íhugað í sumar að segja upp störfum. „Sú hugsun læddist að mér en ég ýtti henni frá mér. Maður gefst ekki upp. Það er ekki í boði og ég hefði aldrei getað sætt mig við það.

Ég og stjórnin höfum rætt á opinn og hreinskilinn hátt um gengi liðsins í sumar. Ég hefði viljað halda áfram en ég skil fullkomlega þessa ákvörðun og tek fulla ábyrgð á gengi liðsins.“

Áföll í vetur kostuðu stig í sumar

Sjálfur rekur Eysteinn slæmt gengi liðsins í sumar að miklu leyti til vetrarins. „Ég vil ekki firra mig ábyrgð en veturinn var að mörgu leyti mjög erfiður. Í byrjun móts förum við inn í sex leiki á tuttugu dögum og af ýmsum illviðráðanlegum orsökum eru margir leikmenn ekki í sínu besta standi. Við slíkar aðstæður er meira en að segja það að standa sig í slíkri leikjatörn. Það sem hjálpar helst við slíkt eru sigurleikir.

Það er líka staðreynd, með fullri virðingu fyrir þeim sem fylltu skörðin og hafa að mörgu leyti staðið sig vel, að við misstum fimm mjög sterka karaktera úr hópnum í vetur. Allt leikmenn sem höfðu fágæta kosti til að bera, eða voru á barmi þess að mega kallast reynslumenn.“ segir Eysteinn og vísar þar til Ragnars Péturssonar og Óttars Steins Magnússonar sem skiptu í önnur lið og þeirra Stefáns Þórs Eyjólfssonar, Þórarins Mána Borgþórssonar og Bjartmars Þorra Hafliðasonar, sem hættu.

„Í staðinn fengum við þrjá útlendinga. Markvörðurinn hefur verið til algjörrar fyrirmyndar. Hinir meiddust báðir mjög fljótlega eftir komuna og hafa auk þess lent í leikbönnum og því átt erfitt með að skila því sem vonast var eftir. Í staðinn hafa aðrir leikmenn fengið reynslu sem á eftir að nýtast þeim vel síðar.

Ég vil nota tækifærið og þakka öllu Hattarfólki fyrir þann magnaða tíma, sem ég hef átt í þessu starfi. Þrátt fyrir slæmt gengi í sumar er sálin sátt við mína innlögn í félagið á þessum árum og ég ítreka óskir mínar um gott gengi þess á öllum sviðum í framtíðinni.“

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.