Birkir Páls: Aðalmarkmiðið er að halda liðinu í deildinni
Birkir Pálsson, sem hóf tímabilið sem fyrirliði karlaliðs Hattar í knattspyrnu, stýrir liðinu út leiktíðina og verður spilandi þjálfari. Hann tekur við þjálfuninni af Eysteini Haukssyni sem var vikið frá störfum fyrir rúmri viku.„Það er klassískt að segja að við förum í hvern leik til að vinna hann en aðalmarkmiðið er að halda sér í deildinni. Allt annað er bónus,“ sagði Birkir í samtali við Austurfrétt í dag.
Birkir er 30 ára gamall, alinn upp hjá Huginn á Seyðisfirði en skipti yfir í Þrótt í Reykjavík árið 2006. Til Hattar kom hann fyrir síðasta tímabil.
Hann stýrði liðinu gegn HK um síðustu helgi þar sem Höttur var hársbreidd frá því að innbyrða sinn fyrsta sigur á tímabilinu. HK-ingar jöfnuðu í 2-2 á síðustu mínútu venjulegs leiktíma.
Vika leið frá því að Eysteinn hætti og þar til tilkynnt var um ráðningu Birkis til frambúðar. Samkvæmt heimildum Austurfréttar var meðal annars rætt við Heimi Þorsteinsson, fyrrverandi þjálfara Fjarðabyggðar og Gorazd Mihailov sem þjálfaði yngri flokka Hattar um árabil.
Leikmenn Hattar munu hins vegar hafa verið ánægðir með umgjörðina í kringum HK-leikinn og í framhaldinu var ákveðið að ráða Birki áfram. Annar Seyðfirðingur, Tómas Arnar Emilsson, verður aðstoðarmaður hans en Árni Ólason og Gunnlaugur Guðjónsson liðsstjórar. Árni var í því hlutverki gegn HK.
„Það er fínt að fá Tómas. Ég held að við verðum góðir saman.“
Höttur er í neðsta sæti annarrar deildar karla með fjögur stig þegar mótið er hálfnað. „Staðan er ekki góð en þegar ég tók við settum við þetta upp sem nýtt tólf leikja mót og við ætlum bara að reyna að vera efstir í því.“
Opnað var fyrir leikmannaviðskipti í byrjun vikunnar. Englendingurinn Joe Lamplough yfirgaf Hött eftir leikinn um helgina. Riste Ilijovski, sonur Gjoko sem lék með Hetti fyrir nokkrum árum og snéri aftur í sumar til að þjálfa yngri flokka, er hins vegar kominn með leikheimild.
„Hann lítur vel út,“ segir Birkir um Makedóníumanninn unga sem leikur væntanlega sinn fyrsta leik gegn Ægi í Þorlákshöfn á laugardag.
„Ef við erum með alla heila þá treysti ég þessum leikmannahópi en við segjum ekki nei við styrk.“