Knattspyrna: Huginn unnið ellefu leiki í röð
Huginn Seyðisfirði er í efsta sæti þriðju deildar karla þegar mótið er hálfanað. Liðið tapaði fyrsta leiknum en síðan hefur það unnið ellefu leiki í röð.Um helgina vann Huginn Kára 2-5 á Akranesi. Stefan Spasic og Marko Nikolic skoruðu fyrir Huginn í fyrri hálfleik en í leikhléi var staðan 2-2. Mörk Rúnars Freys Þórhallssonar, Birgis Hákonar Jóhannssonar og Friðjóns Gunnlaugssonar innsigluðu sigurinn í seinni hálfleik.
Fjarðabyggð er í öðru sæti deildarinnar, sex stigum á eftir en á leik til góða. Espen Lauridsen skoraði á sautjándu mínútu og Hákon Þór Sófusson bætti við tveimur mörkum og Jerson Dos Santos einu á síðasta hálftímanum. Fjarðabyggð var þá orðin manni fleiri.
Leiknir komst á sigurbraut á ný eftir fimm tapleiki í röð. Liðið vann Augnablik á búðagrund 5-0 þar sem Almar Daði Jónsson skoraði þrennu og Ingólfur Sveinsson eitt mark en það fimmta var sjálfsmark.
Einherji er einnig á toppnum í C riðli fjórðu deildar karla eftir 4-1 sigri á Létti á Vopnafirði á laugardag. Sigurður Donys Sigurðsson skoraði þrennu og Bjartur Aðalbjörnsson eitt mark.
Höttur er enn í bullandi fallhættu eftir 1-1 jafntefli gegn Ægi í Þorlákshöfn. Jónas Ástþór Hafsteinsson jafnaði eftir klukkutíma leik. Anton Ástvaldsson, sem kom frá Gróttu í vikunni, fékk sitt annað gula spjald í leiknum og þar með það rauða í uppbótartíma.
Kvennaliðinu gengur öllu betur en það er í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppni fyrstu deildar. Liðið gerði 1-1 jafntefli við Fjölni á Egilsstöðum um helgina. Fanney Kristinsdóttir jafnaði fyrir Hött á 65. mínútu. Fjönir vann hins vegar Fjarðabyggð á sunnudag 0-3.