Tour de Ormurinn haldinn í annað sinn

tour de ormurinn 0218 webHjólreiðakeppnin Tour de Ormurinn verður haldin í annað sinn laugardaginn 10. ágúst. Í keppninni verður hjólað umhverfis Lagarfljótið. Keppnisvegalengdirnar eru tvær, 68 km hringur og 103 km. 

Keppt verður í flokkum karla og kvenna í báðum vegalengdum. Í þeirri styttri verður hægt að taka þátt í liðakeppni þar sem þrír einstaklingar keppa saman.

Keppnin var haldin í fyrsta skipti í fyrra. Halldór G. Halldórsson varð þá sigurvegari í styttri hringnum á 2:34,31 klst. en Unnsteinn Jónsson kom fyrstur í mark í 103 km hringnum á 4:02,31 klst.

Ræst verður kl. 9:00 á laugardagsmorgun við bílastæðið hjá Mörkinni í Hallormsstaðarskógi og hjólað út í Egilsstaði og upp Fell. Í styttri hringnum er beygt yfir Jökuls á í Fljótsdal neðan við Hengifoss en í lengri hringnum er haldið áfram alla leið inn í dalbotn í Fljótsdal.

Hringnum er síðan lokað þar sem hann hófst í Hallormsstaðarskógi. Búist er við fyrstu keppendum í 68 km hringnum eftir rúma tvo klukkutíma en eftir tæpa fjóra tíma úr lengri hringnum.

Það eru Austurför, UÍA og sveitarfélagið Fljótsdalshérað sem standa að keppninni. Skráning og nánari upplýsingar eru á www.traveleast.is eða á Facebook.

Skipuleggjendur beina þeim tilmælum til ökumanna að sýna hjólreiðamönnum tillitssemi á laugardagsmorguninn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar