72 stig í einni lotu í blaki: Þetta var hálf brjálað
Ana Vidal, þjálfari karlaliðs Þróttar í blaki segir að gott úthald hafi reynst liðinu dýrmætt þegar það sótti fjögur stig af sex möguleikum í tveimur leikjum á heimavelli gegn Stjörnunni um helgina. Lokatölur fjórðu hrinu fyrri leiksins urðu 37-35 sem er fáséð í blakleikjum.
„Ég hef séð svona hrinu en þessi var samt hálf brjáluð. Við vorum yfir mest allan tímann og fengum fleiri færi til að skora sigurstigið. Mér fannst andstæðingarnir vera að þreytast svo við reyndum að koma boltanum yfir, verjast vel og pína þá í mistök.“
Stjarnan vann fyrstu tvær hrinurnar en Þróttur næstu tvær. Gestirnir höfðu síðan sigur í oddahrinunni. Ana segir þá hafa lagt allt í sölurnar í leiknum sem tók tvo og hálfan tíma og verið gjörsamlega búna þegar kom að seinni leiknum á laugardag sem Þróttur vann 3-0.
„Sundlaugin var opnuð fyrir okkur kvöldið eftir fyrri leikinn og liðin slöppuðu þar af. Mér fannst þeir hins vegar alveg orkulausir þegar kom að seinni leiknum.
Liðin lögðu allt í sölurnar og það var mikil spenna inni á vellinum, tuð milli liða og við dómarana. Þegar á leið virtist okkar lið í betra formi og gat staðið leikina af sér.“
Hún segist ekki hafa svekkt sig á að tapa fyrri leiknum í oddahrinu. „Stundum snýst hún um heppni og ég horfi meira á hvernig við spilum frekar en úrslitin og frá og með þriðju hrinunni spiluðum við vel.“
Þrótti hefur gengið erfiðlega með Stjörnuna síðustu ár en sigurinn um helgina gæti veitt meira sjálfstraust þar sem bikarkeppni og síðan úrslitakeppni nálgast.
„Við erum eina liðið í deildinni sem hefur unnið hin liðin að minnsta kosti einu sinni. Við treystum á fáa leikmenn til að draga vagninn og þegar þeir spila vel getum við unnið en ef þeir eiga ekki góðan dag er ekki mikið sem við getum gert.“
Mynd: Jón Guðmundsson