Knattspyrna: Lóðrétt fall Hattar

hottur sindri 05092013 0060 webÞegar að flautað var til leiks Hattar og Sindra í dag var ljóst að ekkert minna en sigur myndi duga Hetti til að halda sér á lífi í annarri deild. Fjögur stig voru í næsta lið og fylgdust aðdáendur Hattar með stöðu Ægis og HK sem fór fram á sama tíma en það voru Þorlákshafnarbúar sem voru með tuttugu stig á meðan að Höttur sat í næst neðsta sæti með sextán.

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill og ekkert sérstaklega mikið fyrir augað. Það var þó eitt mark skorað og var það nokkuð laglegt. Högni Helgason skoraði það með skoti fyrir utan teig, með smá viðkomu í varnarmanni en boltinn flaug yfir markmann Sindra og staðan því 1-0 í hálfleik. Ef að fyrri hálfleikur var hvítur þá var sá seinni svartur, kolsvartur.

Í byrjun þess seinni skullu Anton Ástvaldsson og reynsluboltinn Sinisa Kekic harkalega saman í teig Sindra. Eftir að báðir höfðu legið í jörðinni í þó nokkurn tíma reif Anton sig á lappir með hausinn vel vafinn. Sinisa vankaðist við höggið og var fluttur í sjúkrabíl af vellinum.

Eftir að leikur hófst aftur eftir dágóða töf fengu Hattarmenn aukaspyrnu á góðum stað. Elvar Þór Ægisson stillti boltanum upp og lúðraði honum í stöng. Á 60. mínútu fengu svo Sindra menn hornspyrnu, hún er skrúfuð inn í markteig, Scott Goodwin markmaður gerði veika tilraun til þess að ná boltanum sem sveif yfir hann og til Atla Arnarssonar og þaðan inn, 1-1.

Það var svo enginn annar en Anton Ástvaldsson sem skoraði þriðja mark leiksins. Hann ýtti boltanum yfir marklínuna frá markteigshorninu þar sem hann lá blóðugur einungis korteri fyrr. Anton sem kom um mitt sumar hefur leikið vel í sumar og ef hefði hann verið með í allt sumar væri Höttur ekki á leið niður, klárt.

Dýr rauð spjöld

Staðan 2-1 og leit þetta nokkuð vel út fyrir Hattara. Á 71. mínútu fær Garðar Már Grétarsson sitt seinna gula spjald fyrir brot á markverði Sindra. Það virtist ódýrt og Garðar óheppinn en dómarinn viss í sinni sök og Hattarar því tíu.

Stuttu síðar vildu Hattarar vítaspyrnu þegar Elvar Þór Ægisson féll í grasið í baráttu við spilandi þjálfara gestanna, Óla Stefán Flóventsson, en ekkert var dæmt.

Á 79. mínútu var boðið upp á endursýningu á fyrra marki Sindra. Hornspyrna frá hægri sveif yfir Scott í markinu, í Sindramann og inn. Glórulausir tilburðir á markmannslínunni. Í þetta skiptið fór þó boltinn af Þorsteini Jóhannssyni og inn, 2-2.

Með jafntefli átti Höttur enn tölfræðilegan sjens á að halda sér uppi en á þessum tímapunkti var orðið ljóst að Ægir ynni HK í Þorlákshöfn. Það var síðan á 84. mínútu sem gestirnir skoruðu sitt þriðja mark. Eftir barning í teig Hattar mætti Fijad Mehanovic boltanum sem var að berast út í teig og setti boltann í fjær hornið óverjandi 2-3.

Conor Sellars leikmanni Hattar þótti ekki nóg um að Höttur væru tíu talsins og henti sér í tveggja fóta tæklingu með sólann upp á miðjum fótlegg andstæðingsins og uppskar rautt spjald fyrir vikið. Dómari leiksins Bryngeir Valdimarsson sá svo ástæðu til að reyna jafna leikinn og rak Jón Brynjar Jónsson útaf fyrir síðbúna tæklingu aftan frá sem einhverjir hefðu ekki refsað harðar fyrir en með gulu spjaldi.

Í uppbótartíma, sem var heillangur vegna meiðslanna fyrr í leiknum, áttu Hattarmenn aukaspyrnu í slá og Sindri einhver hálffæri. Við lokaflaut Bryngeirs var áhorfendum og leikmönnum ljóst hver örlög liðsins væru. Fall.

Hvað hefur svo farið úrskeiðis í sumar?

Ekki eru meira en tvö ár síðan að undirritaður stóð á Selfossvelli ásamt fleirum, og fagnaði því að Höttur væri búinn að tryggja sér sæti í fyrstu deild í fyrsta skipti í sögu félagsins. Nú rétt tæpum tveimur árum síðar horfir sömu stuðningsmenn á eftir liðinu niður í þriðju deild.

Eðlilegt er því að spyrja hvað í ósköpunum hefur farið úrskeiðis í sumar?

Það var alltaf vitað að það yrði erfitt fyrir Hött að halda sér uppi í þeirri fyrstu, að vísu hefði einn sigur í síðustu þremur leikjum síðasta sumars tryggt tilverurétt liðsins þar en þau þrjú stig skiluðu sér ekki. Aftur á móti að falla niður í þriðju deild úr þeirri fyrstu á tveimur árum er ekkert annað en hundlélegt.

Erlendu leikmennirnir styrktu ekki liðið

Það sem Hetti lærðist kannski hvað mest í sumar er að útlendingahappdrættið gefur ekki alltaf góða vinninga og stundum er betra að sleppa því að taka þátt. Hvað klikkaði? Slæmur undirbúningur við að athuga getu þeirra sem komu erlendis frá eða hrein og bein óheppni? Það skal látið ósagt. Aftur á móti er það klárt að þeir útlendingar sem fengnir voru til liðsins til þess að bæta það brugðust, gjörsamlega.

Það er erfitt að fá íslenska drengi til að koma með út á land til að spila fótbolta og því þarf að leita utan landsteinanna. Það er vissulega gremjulegt en sá raunveruleiki sem lið utan höfuðborgarsvæðisins búa við. Þegar menn fara þá í þann pakka að sækja sér leikmenn að utan er gerð sú lágmarkskrafa að viðkomandi leikmenn bæti liðið og séu helst sterkustu leikmenn liðsins. 

Það er þó ekki þannig að það hafi bara verið leikmenn að utan sem brugðust því fáir leikmenn Hattar léku á pari í sumar og vel flestir undir því. Því þurfa allir að bera sameiginlega ábyrgð á gengi liðsins í ár. Stuðningsmenn liðsins eru ekki þar undanskildir því vantað hefur að gera Vilhjálmsvöll að gryfju, það er gömul saga og ný.

Átti að skipta fyrr um þjálfara?

Úrslit tímabilsins sýna að úr því að farið var í að skipta um þjálfara þá hefði átt að gera það fyrr. Eysteinn sem náði frábærum árangi með að koma liðinu upp í fyrstu deild náði ekki að halda sama dampi með liðið. Eftir vondan seinni helming mótsins síðasta sumar sem sá til þess að Höttur fór niður í aðra deild þá byrjaði Höttur sumarið í ár á svipuðum nótum og það endaði tímabilið 2012. Níu umferðir inn í mótið var liðið enn án sigurs. Eftir 2-0 tap gegn Sindra hætti Eysteinn sem þjálfari félagsins.

Eysteinn leiddi ákveðna fagmennsku og fyrirmyndar vinnubrögð inn í meistaraflokk Hattar. Stemmingin sem var á fyrsta tímabil hans virðist ekki hafa svifið yfir liðinu í ár og sigurvilji hans hafi ekki náð að smitast í leikmenn.

Þjálfaraskipti voru gerð og Birkir Pálsson mætti í þjálfarastóllinn. Við það náði liðið að rétta sig við en það var seint, of seint.

Staðreyndin er því sú að Höttur leikur í þriðju deild á næsta ári. Tvö lið í nágrenni þess, Huginn og Fjarðabyggð, munu spila í deild fyrir ofan liðið. Ljóst er að ef Höttur nær ekki að binda núverandi leikmenn sína niður og ef menn sýna ekki tryggð við félagið þá verður dvöl þess í þriðju deild of löng.

hottur sindri 05092013 0002 webhottur sindri 05092013 0003 webhottur sindri 05092013 0019 webhottur sindri 05092013 0038 webhottur sindri 05092013 0040 webhottur sindri 05092013 0055 webhottur sindri 05092013 0066 webhottur sindri 05092013 0077 webhottur sindri 05092013 0085 webhottur sindri 05092013 0086 webhottur sindri 05092013 0092 webhottur sindri 05092013 0098 webhottur sindri 05092013 0111 web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar