Einherji deildarmeistari í fjórðu deild: Búið að vera frábært sumar í alla staði

einherji meistari webLiðsmenn Einherja tóku í dag á móti meistaratitli fjórðu deildar eftir 2-0 sigur á Berserkjum í úrslitaleik deildarinnar á Sauðárkróksvelli. Þjálfari liðsins segir öll markmið sumarsins hafa náðst.

„Þetta hefur verið frábært sumar í alla staði. Við settum okkur markmið sem við tókum skref fyrir skref og kláruðum með sóma. Fyrsta markmiðið var að vinna riðilinn okkar, það næsta að komast upp og það þriðja að vinna deildina,“ sagði Víglundur Páll Einarsson, þjálfari Einherja, í samtali við Austurfrétt í kvöld.

„Það var frábært að taka á móti bikarnum. Þetta er í fyrsta skipti sem meistaraflokkur Einherja tekur á móti bikar. Það er ágætt að geta loks þaggað niður í þessum gömlu köllum sem tala um gullaldarár Einherja. Þeir unnu aldrei neitt!“

Mikill baráttuleikur

Hann var þá með liðinu á leið heim til Vopnafjarðar frá Sauðárkróki þar sem liðið vann Berkserki úr Fossvogi 2-0 í úrslitaleik deildarinnar. Sigurður Donys Sigurðsson skoraði fyrra mark Einherja á 17. mínútu og Guðlaugur Bjarnar Baldursson það seinna á 78. mínútu.

„Þetta var mun meiri baráttuleikur en maður bjóst við með mörgum spjöldum, tæklingum og brotum. Við hefðum getað skorað fleiri mörk í fyrri hálfleik en nýttum því miður ekki færin. Í seinni hálfleik fórum við heldur snemma að halda fengnum hlut en eftir að annað markið kom var sigurinn aldrei í hættu.“

Fjórðungsúrslitin erfiðust

Einherji tryggði sér sæti í þriðju deildinni að ári með 1-2 sigri á Knattspyrnufélagi Garðabæjar (KFG) á miðvikudagskvöld eftir að hafa unnið heimaleikinn 1-0. Í fjórðungsúrslitum vann liðið annað Garðabæjarlið, Skínanda, 3-0 heima eftir að hafa lent 3-1 undir eftir fyrri leikinn á útivelli.

„Skínandi var að mínu mati langbesta liðið sem við mættum í sumar,“ segir Víglundur og bendir á að sú rimma hafi verið það sem mest reyndi á Einherja í sumar.

En þegar á reyndi var það heimavöllurinn sem gerði gæfumuninn. Liðið vann alla leiki sína á Vopnafjarðarvelli í sumar, fékk á sig þrjú mörk en skoraði ríflega fjörutíu. Völlurinn, sem dags daglega kallast Frímerkið þar hann þykir frekar lítill, hefur nú lokið hlutverki sínu en gamli malarvöllurinn við hliðina var tyrfður í sumar og á honum verður leikið í nýrri deild næsta sumar.

„Það er fínt að kveðja Frímerkið svona og byrja á nýja vellinum í nýrri deild á næsta ári.“

Stuðningsmennirnir gerðu útslagið

Það voru hins vegar íbúar á Vopnafirði sem gerðu völlinn að þeirri ljónagryfju sem hann var í sumar. Yfir 250 áhorfendur mættu á heimaleikina tvo í útsláttarkeppninni, 150 Vopnfirðingar voru á undanúrslitaleiknum í Garðabæ á miðvikudagskvöld og á milli 50 og 60 stuðningsmenn fylgdu liðinu á Sauðárkrók í dag.

„Það er meira en að segja það að leggja á sig átta tíma ferðalag fyrir einn fótboltaleik. Það eina sem hefur heyrst úr stúkunni í þessum leikjum í úrslitakeppninni var: „Áfram Einherji!“ Það hefur hjálpað okkur ótrúlega mikið.“

Lykilatriði að semja við heimamenn fyrst

Í samtalinu við Austurfrétt í kvöld staðfesti Víglundur að hann yrði áfram þjálfari Einherja. Mikilvægast sé að tryggja að núverandi leikmenn haldi áfram áður en farið verður að leita eftir nýjum.

„Við reynum að byrja fyrr að æfa og hafa leikmannahópinn aðeins fyrr tilbúinn en í ár. Lykilatriðið er að halda í þá leikmenn sem fyrir eru og það næsta að reyna að fá Vopnfirðinga heim áður en menn fara að leita víðar.“

Fleiri myndir úr leiknum eru á vef Feykis.

Myndir: Feykir/Páll Friðriksson

062 web095 web110 web115 web140 web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar