Izudin Daði: Þurftum stundum í sumar að hringja í menn sem ekkert höfðu æft til að ná í hóp
Izudin Daði Dervic, þjálfari Leiknis Fáskrúðsfirði, segir tímabilið hafa verið erfitt hjá hans liði í sumar þar sem hópurinn hafi ekki verið nógu breiður. Eftir frábæra byrjun tóku við meiðsli og bönn þannig að liðið dróst niður í botnbaráttuna.„Við vorum að tapa 1-5, þarf að segja meira?“ spurði Daði í samtali við Austurfrétt eftir leik Leiknis og Fjarðabyggðar á laugardag. „Þeir voru betri í leiknum og unnu sanngjarnan sigur. Ég óska þeim til hamingju með fyrsta sætið í deildinni.“
Leiknir komst í fyrra upp úr þáverandi þriðju deild upp í núverandi þriðju deild sem er tíu liða deild leikin á landsvísu. „Þetta er skemmtileg deild en því miður fyrri hin liðin voru Huginn og Fjarðabyggð langsterkust og stungu af.“
Leiknisliðið virtist líklegt í byrjun til að fylgja hinum Austfjarðaliðunum eftir og berjast um sæti í annarri deild. Eftir sigur í fyrstu fjórum leikjunum hrökk allt í baklás og liðið bjargaði sér aðeins frá falli með sigri á ÍH í næst síðustu umferðinni.
Izudin Daði segir að Fáskrúðsfirðinga hafi vantað öflugri hóp til að takast á við kröfurnar í sterkri deild. „Við áttum 11-12 leikmenn sem voru tilbúnir í þessa deild. Við spiluðum mjög vel í fyrstu fjórum leikjunum en misstum svo alla miðjuna í meiðsli, bönn og fleira.
Ég vildi fá fjóra leikmenn í viðbót fyrir tímabilið til að lenda akkúrat ekki í þessu. Í dag vantaði sex leikmenn í byrjunarliðið frá fyrsta leik. Í nokkrum leikjum vorum við 13 á skýrslu eða þurftum að hringja í leikmenn hingað og þangað sem voru ekkert í æfingu til að fylla á hópinn. Við skráðum líka leikmenn á skýrslu sem ekki voru á bekknum til þess að líta betur út.“
Daði vildi ekki segja af eða á um hvort hann yrði áfram þjálfari liðsins. „Ég hef aldrei hugsað strax um næsta sumar. Fyrst fer ég heim og hvíli mig, síðan kemur í ljós hvað maður gerir. Ég er búin að vera hér í þrjú ár og á eftir að ákveða hvort maður heldur þessari vinnu áfram eða fer að gera eitthvað annað.“