Binni Gests: Þetta lið hefði vel getað verið í toppbaráttunni í annarri deild

brynjar gestsson kff2Lið Fjarðabyggðar er tilbúið til að vera meðal þeirra bestu í annarri deild karla í knattspyrnu næsta sumar. Þjálfari liðsins segir leikmennina hafa sýnt miklar framfarir í sumar og brugðist vel við tilsögn. Ekki þurfi að styrkja liðið mikið til að komast á ný upp í fyrstu deild.

„Ég get sagt það í fullri hreinskilni að í byrjun sumars var ég í vandræðum með að fylla í átján manna hóp mér fannst leikmennirnir ekki nógu góðir. Í gær var ég í bullandi basli með að skera niður og ég held að það hafi allir á einhverjum tímapunkti verið inni í hópnum. Þetta sýnir að leikmenn hafa lært mikið í sumar og tekið miklum framförum,“ sagði Brynjar Gestsson, þjálfari Fjarðabyggðar í samtali við Austurfrétt eftir 1-5 sigur liðsins á Leikni á laugardag.

Fjarðabyggð komst yfir strax á annarri mínútu leiksins og bætti svo við öðru marki en Leiknismenn minnkuðu muninn fyrir leikhlé. Heimamenn sáu hins vegar ekki til sólar í seinni hálfleik.

„Við gerðum þetta aðeins spennandi í fyrri hálfleik. Það slokknaði á okkur nánast strax eftir fyrsta markið. Seinni hálfleikurinn var hins vegar mjög góður og gott flæði í leik okkar. Hins vegar voru sóknir sem litu vel út en mistókust þegar menn hittu ekki blöðruna eftir að hún hafði skoppað á einhverri snarrótarþúfunni.“

Með sigrinum tryggði Fjarðabyggð sér fyrsta sæti þriðju deildar en liðið hafði þar skamma viðveru eftir fall úr annarri deild í fyrra.

„Þetta er öflugt og þétt lið sem sést í því að við höfum fengið á okkur 14 mörk í 18 leikjum. Mér finnst liðið hafa spilað fantagóðan fótbolta. Þetta er sterkt lið sem að mínu mati hefði getað verið í toppbaráttunni í annarri deild.“

Undirbúningurinn fyrir næsta tímabil hefst strax þegar menn fara að skoða leikmannamál fyrir þátttökuna í öflugri deild. Brynjar verður sjálfur áfram og framlengir væntanlega samning sinn innan skamms.

„Níutíu prósent leikmanna verða pottþétt áfram, það eru 1-3 sem eiga eftir að ákveða sig. Í febrúar/mars tek ég stöðuna þegar ég sé hversu langt ég get farið með ungu strákana sem eru hér. Við komum til með að æfa mikið.

Ef við ætlum að gera árás að sæti í fyrstu deild þurfum við líklega að bæta við tveimur leikmönnum. Ég er ekki að tala um aðkomumenn. Það er nóg af leikmönnum á Austfjörðum. Spurningin er hvar þeirra metnaður liggur.“


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.