Hreyfivika á Fljótsdalshéraði hlýtur alþjóðlega viðurkenningu: Tekið eftir samvinnunni í samfélaginu

david sigurdarson hottur move weekHreyfivika sem íþróttafélagið Höttur og sveitarfélagið Fljótsdalshérað halda utan um á Héraði í næstu viku hefur hlotið verðlaun sem eitt besta verkefnið í evrópsku „Move Week“ herferðinni. Tekið var eftir samvinnu ólíkra hópa í samfélaginu sem leggjast á eitt til að stuðla að aukinni hreyfingu.

„Við vorum með þegar vikan var haldin í fyrsta sinn í fyrra og auglýstum þá starfið okkar í samstarfi við sveitarfélagið. Það var tekið eftir samvinnunni og hvatningunni til almennrar hreyfingar í samfélaginu,“ segir Davíð Þór Sigurðarson, formaður Hattar, sem stýrir verkefninu á Fljótsdalshéraði.

Dagana 7. - 13. október stendur yfir svokölluð „Move Week“ víða í Evrópu. Herferðin „Now We Move“ er fjármögnuð af Evrópusambandinu en markmiðið er að 100 milljónir fleiri Evrópubúar verði orðnir virkir í hreyfingu og íþróttum fyrir árið 2020 en eru í dag. ISCA-samtökin (International Sport and Culture Association) halda utan um verkefnið en Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) er aðili að samtökunum og fylgir því eftir hérlendis.

„Tilgangur vikunnar er að vekja athygli á því skipulagða starfi serm er til staðar í samfélaginu og virkja fólk til þátttöku í því. Við vonumst til að fá fleiri inn í okkar starf, jafnt börn sem fullorðna,“ segir Davíð.

Allar deildir Hattar standa til dæmis fyrir opnum æfingum þar sem gestir fá án endurgjalds að prófa viðkomandi grein. Fleiri íþróttafélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök, svo ekki sé minnst á sveitarfélagið sjálft, taka virkan þátt í vikunni sem lýkur með opnum degi í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum þar sem sjálfur Íþróttaálfurinn kemur í heimsókn.

Auðvelt en ekki sjálfgefið að fá ólíka aðila með

Það er þetta samstarf sem vakið hefur athygli út fyrir landsteinana en Hreyfivikan á Fljótsdalshéraði er eitt af níu verkefnum sem hljóta verðlaun Move Week í ár fyrir samvinnu ólíkra aðila innan sveitarfélags.

„Ég ímynda mér að það sem veki athygli út í heimi er hversu auðveldlega er hægt að tengja saman undir einum hatti aðila eins og sveitarfélag, skóla, íþróttahreyfingu, félög, verslanir og hópa. Í sjálfu sér er það rétt.

Það er samt ekkert sjálfgefið að svona margir og ólíkir aðilar bregðist við með þessum hætti. Það er mikill styrkleiki fyrir samfélög þar sem þetta er hægt,“ segir Óðinn Gunnar Óðinsson, atvinnu-, menningar- og íþróttafulltrúi Fljótsdalshéraðs.

„Það eru ýmis verkefni í gangi sem eru til þess hugsuð að hvetja til hreyfingar. Sveitarfélagið hefur reynt að taka þátt í þeim eða hvetja til þátttöku. Með Hreyfivikunni gefst okkur tækifæri til að vinna verkefnið á okkar eigin forsendum.

Það sem mér finnst athyglisverðast þegar farið var að undirbúa Hreyfivikuna er hvað allir voru jákvæðir og tilbúnir að vera með. Eins hve margir og fjölbreyttir möguleikar í boði hér hjá okkur.

Allir þeir sem eru með að þessu sinni eiga þakkir skildar. Nú vona ég bara að íbúar sveitarfélagsins og annarra sveitarfélaga á Austurlandi kynni sér það sem verður í boði og taki þátt í þessu með okkur.“

Skemmtilegast þegar margir koma saman til að vinna

Davíð segir viðurkenninguna hafa komið skemmtilega á óvart. „Við eigum ekki hugmyndina að vikunni en við gripum hana á lofti og settumst niður saman. Það er það skemmtilegasta, að menn koma saman til að vinna en séu ekki hver í sínu horni.“

Dreifibréf verður sent til allra íbúa sveitarfélagsins fyrir helgi en nánari upplýsingar um vikuna má finna á www.hottur.is og www.fljotsdalsherad.is.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar