Blakið byrjar: Ætlum okkur að vera í baráttunni um alla titlana þrjá í vetur

blak throttur hk meistarar 06042013 0300 webLið Þróttar hefja leik í Íslandsmótinu í blaki um helgina. Karlaliðið leikur tvo leiki við HK en kvennaliðið tekur á móti Stjörnunni. Þjálfari kvennaliðsins segir markið sett hátt enda liðið ríkjandi Íslandsmeistari. Hjá karlaliðinu er stefnan sett á að byggja ofan á góðan árangur frá í fyrra þar sem liðið komst í undanúrslit í bæði Íslandsmótinu og bikarkeppninni.

„Liðið er að mínu mati sterkt og við ætlum okkur að vera með í baráttunni um alla titlana þrjá eins og í fyrra,“ segir Matthías Haraldsson, þjálfari kvennaliðsins. Það varð Íslands- og deildarmeistari og komst í úrslit bikarkeppninnar.

Þær Lauren Laquerre, Hulda Elma Eysteinsdóttir og Sunna Júlía Þórðardóttir hafa yfirgefið meistaraliðið. Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir snýr heim úr atvinnumennsku og Rannveig Júlía Sigurpálsdóttir kemur aftur eftir að hafa verið erlendis síðasta vetur.

Ásdís Helga Jóhannsdóttir, uppalinn Þróttari sem spilaði með Aftureldingu í fyrra, er gengin aftur liðs við uppeldisfélagið og Sigga Thea Sigurðardóttir, 15 ára uppspilari, spilar sitt fyrsta tímabil í meistaraflokki.

„Liðið er búið að æfa vel síðan í byrjun ágúst og verður gott að hefja tímabilið um helgina gegn Stjörnunni.,“ segir Matthías.

Þá hefur Þróttarliðið verið skráð til leiks í meistarakeppni Norðurlandasem fram fer í Kaupmannahöfn 1. – 3. nóvember. Þar verður spilað gegn dönsku liðunum Holte og Fredriksberg og Lindesberg frá Svíþjóð.

Kvennaleikurinn er á morgun klukkan 14:00 en það er karlaliðið sem ríður á vaðið með leik gegn Íslands- og bikarmeisturum HK klukkan 20:30 og aftur á hádegi á morgun. Liðið mætti til leiks í efstu deild í fyrra eftir að hafa spilað í rúm tíu ár „á rólegri vettvangi,“ eins og þjálfarinn, Hlöðver Hlöðversson, orðar það.

„Nú höfum við síðasta tímabil í reynslubankanum og mun það nýtast okkur vel á núverandi tímabili. Það er mikill hugur í mönnum og menn vilja meira og engrar hófsemi er að gæta í markmiðum þessa tímabils.“

Liðið heldur öllum lykilmönnum og bætir við sig Lárusi Thorarensen úr Stjörnunni og Sigurjóni Egilssyni, sem til þessa hefur verið þekktari fyrir knattspyrnuiðkun.

Hlöðver tekur fram að menn séu ávallt velkomnir á æfingar enda einnig lið í 2. deild og því þörf á stórum hóp. „Allir hjálpast að og breiddin í liðinu slík að í allar stöður getur komið maður í manns stað.

Við komum afar vel stemmdir til leiks og erum afar bjartsýnir með að keppnistímabilið verði skemmtilegt og spennandi.“

Frítt er á leikina en tekið á móti frjálsum framlögum. Stefnt er að því að sýna þá í beinni útsendingu á: http://www.ustream.tv/channel/throtturnesblak

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar