Hreyfivika: Sprenging í gönguátaki HSA
Þátttakendum í hreyfiátaki Heilsugæslunnar á Egilsstöðum fjölgaði um helming í tilefni Hreyfiviku á Fljótsdalshéraði. Læknir við heilsugæsluna segir mikla vakningu hafa orðið á undanförnum árum um gildi hreyfingar til að fyrirbyggja og meðhöndla sjúkdóma.„Það komu 55 manns síðastliðinn mánudag en höfðu flestir verið 29. Þar virðist þessu mikla auglýsing um Hreyfivikuna hafa skipt máli. Fólk virðist svara því að ýtt sé við því,“ segir Pétur Heimisson, heimilislæknir og einn umsjónarmanna verkefnisins.
Heilsugæslan á Egilsstöðum kom nýverið á fót hreyfihóp undir heitinu: „Hreyfihópur heilsugæslunnar – göngum saman.“ Verkefnið samanstendur bæði af hreyfingu og fræðslu. Verkefnið hófst í september og hittist hópurinn á þriðjudögum og fimmtudögum klukkan 17:00 á Vilhjálmsvelli.
Ávallt er fagaðili til staðar sem skráir niður hreyfingu og fylgist með líðan þeirra sem í hópinn mæta. Fagfólk heilsugæslunnar vísar á hópinn en hann er þó opinn hverjum þeim sem vill ganga með honum.
„Þátttakan hefur farið fram úr okkar björtustu vonum. Það hafa alltaf mætt á milli 20 og 30 manns en við áttum alveg eins von á litlum undirtektum og bjuggum okkur undir það.“
Markmiðið er að byrja á stuttri göngu sem síðan lengist enda aðalmarkhópur verkefnisins fólk sem ekki hreyfir sig reglulega. „Með því að vera á tartanbrautunum á vellinum er hægt að fara á hraða sem hentar hverjum og einum en menn samt notið samverunnar,“ segir Pétur.
Hjá heilsugæslunni er starfandi lífsstílsteymi sem byggir á þeirri hugmyndafræði að snúa frá því að hefja strax lyfjameðferð þegar greindur hefur verið sjúkdómur sem tengist lífsstíl. Heldur sé höfðað til ábyrgðar einstaklingsins á eigin heilsu. Þannig aukist líkurnar á að hann geri málið að sínu. Vonast er til að fleiri á þjónustusvæði heilsugæslunnar hreyfi sig reglulega sem geti mögulega til lengdar þýtt að það dragi úr þörf á lyfjameðferð.
Pétur segir mikla vakningu hafa orðið á síðustu árum um gildi hreyfingar til að fyrirbyggja og meðhöndla sjúkdóma. „Svokallaðir hreyfiseðlar þegar læknir skrifar ávísun á hreyfingu í staðinn fyrir eða samhliða ávísun á lyf er aðferðarfræði sem er vel prófuð og gagnreynd,“ segir Pétur.
Auk hreyfistundanna eru haldnir fyrirlestrar einu sinni í mánuði um gildi hreyfingar. Fyrsta fræðslukvöldið var í lok september og var þangað vel mætt að sögn Péturs.
Verkefnið er áætlað til eins árs en árangurinn verður metinn eftir um hálft ár. „Á útmánuðum verður farið að fara yfir hvernig til hefur tekist og meta hvort og hvernig við getum haldið þessu áfram.“