Íþróttir helgarinnar: Þróttur á toppnum í karlablakinu

blak throttur hk okt13 kk 0002 webÞróttur er í efsta sæti Mikasa deildar karla í blaki eftir tvo sigra á Aftureldingu um helgina. Körfuknattleikslið Hattar tapaði fyrir Breiðabliki í fyrstu umferð fyrstu deildar karla.

Lið Aftureldingar var vængbrotið með tvo leikmenn í banni eftir uppþot í leik liðsins gegn Stjörnunni helgina áður. Fyrri leikurinn var á föstudagskvöld og hann vann Þróttur 1-3; 22-25, 22-25, 25-21 og 25-22.

Liðin mættust aftur á laugardaginn. Hópur Þróttar var þá frekar þunnur, aðeins sex leikmenn tiltæknir, þar sem Geir Hlöðversson handarbrotnaði í fyrri leiknum eftir árekstur við samherja og Stefán Jóhannsson var farinn erlendis sem skíðaþjálfari.

Þróttur vann samt fyrstu tvær hrinurnar 25-19 og 25-18. Í þeirri þriðju hrinu tognaði einn leikmanna liðsins á ökkla en þar sem engir varamenn voru tiltækir varð hann að harka af sér og klára leikinn. Þá hrinu vann Afturelding 13-25.

Mosfellingar náðu samt ekki að nýta sér tækifærið og Þróttur vann fjórðu hrinuna 25-22. Liðið er efst í deildinni með átta stig eftir tvo leiki en næstu lið eiga leiki til góða.

Höttur heimsótti Breiðablik þegar keppni í fyrstu deild karla í körfuknattleik hófst á föstudagskvöld og tapaði 80-72 í hörkuleik. Blikar voru yfir eftir fyrsta leikhluta, 24-19 en í hálfleik 39-37.

Hattarmenn snéru leiknum sér í hag í þriðja leikhluta og voru 58-59 yfir að honum loknum. Eftir tæplega fjögurra mínútna leik í loka leikhlutanum voru þeir komnir með tíu stiga forskot, 61-71.

Þá hrökk hins vegar allt í baklás. Tveimur mínútum síðar voru Blikar búnir að jafna og héldu áfram á sömu braut þar sem Hattarmenn skoruðu aðeins eitt stig seinni hluta leikhlutans.

Bandaríkjamaðurinn Jerry Lewis Hollis skoraði 16 af þeim 19 stigum sem Blikar skoruðu á þessum kafla en hann skoraði alls 37 stig í leiknum og tók 17 fráköst.

Austin Bracey skoraði 21 stig fyrir Hött og Frisco Sandidge 17, auk þess sem hann tók 12 fráköst og stal boltanum fimm sinnum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.