Maraþonsund í Neskaupstað: Vaskir Þróttarar syntu upp í Hérað
Árlegt maraþonsund Þróttar í Neskaupstað var haldið um síðustu helgi. Byrjað var að synda kl 14 á föstudag og ekki hætt fyrr en sólarhring síðar.Alls tóku 38 börn þátt í sundinu sem er haldið til fjáröflunar fyrir sunddeild Þróttar og voru þau á aldrinum 7-13 ára. Veðrið lék heldur betur við þátttakendur, og var hitastigið yfir 15 gráður á laugardeginum, glampandi sól og blankalogn.
Bæjarbúar gátu styrkt hvern syntan kílómeter, tekið þátt sjálf eða borgað bara eina upphæð til deildarinnar. Voru þó nokkrir alvanir sundmenn sem lögðu leið sína í laugina til að vera með. Einnig syntu nokkrir foreldrar með börnum sínum.
Takmark með sundinu ár hvert er að synda upp í Egilsstaði og hefur það tekist nokkrum sinnum, en í ár náðu þessir flottu krakkar að synda slétta 74 kílómetra. Metið hjá sunddeildinni eru 77.35 kílómetrar og var sett i fyrra.
Með því að smella á myndina hér til hliðar má sjá nokkrar myndir úr sundinu sem Kristín Hávarðsdóttir tók.